Erlent

Heimilar birtingu gagna úr rann­sókn á Maxwell

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump Epstein Takeaways
AP/John Minchillo

Bandarískur alríkisdómari heimilaði í dag dómsmálaráðuneytinu að opinbera gögn úr rannsókn ákærudómstóls sem beindust að Ghislaine Maxwell. Ákvörðunin gæti leitt til birtingar mikils magns áður óséðra gagna í Epstein-málinu.

Ákvörðunin fylgir á hæla þess að annar dómari heimilaði ráðuneytinu að opinbera gögn frá rannsókn ákærudómstóls gegn Jeffrey Epstein frá fyrsta áratug aldarinnar. Þá er einn dómari til viðbótar með til skoðunar hvort opinbera eigi gögn úr rannsókninni gegn Epstein frá árinu 2019, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Ákærudómstólar eru sérstök bandarísk fyrirbæri þar sem saksóknarar fá almenna borgara til að mynda kviðdóm og fara yfir sönnunargögn og vísbendingar sem búið er að afla í tilteknum málum og segja til um hvort tilefni sé til að leggja fram ákærur, í einföldu máli sagt.

Mikil leynd hvílir yfir störfum ákærudómstóla og upplýsingar úr slíkum rannsóknum eru sjaldan sem aldrei birtar. Nokkrir aðrir dómarar höfðu áður hafnað því að birta gögnin.

Í úrskurði sínum vísaði dómarinn til nýrra laga um að dómsmálaráðuneytinu beri að opinbera gögn sín um mál sem tengjast Epstein og það fyrir 19. desember.

Sjá einnig: „Demókratar munu sjá eftir þessu“

Lögin sem um ræðir snúa að skjölum sem dómsmálaráðuneytið hefur aflað í tengslum við rannsóknir í garð Jeffreys Epstein og annarra sem honum tengjast í gegnum árin. Það á við um rannsóknina þegar hann var handtekinn 2019 en gögnin ættu meðal annars að varpa ljósi á samkomulag sem Epstein gerði við saksóknara í Flórída á árum áður og rannsóknirnar sem bæði lögreglan í Flórída og Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) gerðu þá.

Sögð fá væga meðferð í nýjum fangabúðum

Epstein svipti sig lífi í fangelsi árið 2019. Hann var 66 ára gamall og hafði þá verið ákærður fyrir mansal og sakaður um að misnota stúlkur kynferðislega og jafnvel útvega áhrifamiklum vinum sínum eins og Andrési prins stúlkur til að misnota.

Maxwell er, eins og frægt er, fyrrverandi aðstoðarkona og kærasta Jeffreys Epstein. Hún var dæmd árið 2021 í tuttugu ára fangelsi fyrir að aðstoða Epstein við að brjóta kynferðislega á stúlkum og ungum konum um árabil.

Hún sat áður í alríkisfangelsi í Flórída en var flutt í lágmarksöryggisfangabúðir í Texas eftir að hún fundaði með Todd Blanche, aðstoðardómsmálaráðherra, fyrr á árinu. Eftir þann fund birti Blanche afrit af samræðum þeirra þar sem Maxwell sagði að Trump hefði aldrei hegðað sér ósæmilega þegar hann og Epstein voru vinir.

Demókratar í dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar hafa haldið því fram að Mawell fái einkar væga meðferð í fangabúðunum í Texas og að starfsfólk þar gangi fram eins og þjónar. Hún fái sérstakar máltíðir sendar til sín og fái þá gesti sem hana langi að hitta, þegar hana langar, á afmörkuðu svæði í fangelsinu. Gestirnir fái meira að segja að taka tölvur með sér.

Fara yfir hvaða upplýsingar eigi að afmá

Í frétt AP segir að starfsmenn ráðuneytisins eigi í viðræðum við fórnarlömb Epsteins og lögmenn þeirra um hvaða upplýsingar megi afmá eða hylma yfir í gögnunum.

Áðurnefnd lög heimila ekki að hylma yfir upplýsingar í gögnunum á þeim grunni að þær gætu valdið ótengdum aðilum skömm eða annars konar vandræðum.

Starfsmenn ráðuneytisins mega þó útiloka upplýsingar sem gætu verið notaðar til að bera kennsl á fórnarlömb Epsteins, innihalda persónulegar heilbrigðisupplýsingar eða gætu komið niður á yfirstandandi rannsókn.

Lögmaður Maxwell segir að hún hafi ekki lýst yfir andstöðu við birtingu gagnanna að öðru leyti en að benda á það slík birting gæti komið niður á tilraunum hennar til að fá málið gegn sér tekið fyrir dóm á nýjan leik. Ómögulegt væri fyrir hana að fá sanngjörn réttarhöld á nýjan leik eftir birtingu gagnanna.


Tengdar fréttir

Kallar Greene heimskan svikara

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er verulega ósáttur við stjórnendur fréttaskýrendaþáttarins 60 mínútna, fréttakonuna Lesley Stahl og eigendur Paramount. Hann virðist þó sérstaklega ósáttur við Marjorie Taylor Greene, fráfarandi þingkonu Repúblikanaflokksins og fyrrverandi stuðningsmann sinn, og kallar hana heimskan svikara í nýrri færslu á samfélagsmiðlum.

Trump staðfestir Epstein-lögin

Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði í nótt undir frumvarp sem kveður á um að stjórnvöld geri öll skjöl varðandi kynferðisglæpamanninn Jeffrey Epstein opinber og aðgengileg almenningi.

Kallar nú sjálfur eftir birtingu Epstein-skjalanna

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur breytt um kúrs og hvatt þingmenn Repúblikanaflokksins til að greiða atkvæði með birtingu allra gagna sem yfirvöld sitja á eftir rannsóknir á athafnamanninum Jeffrey Epstein.

„Ég er sá sem getur fellt hann“

Mike Johnson, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir að frumvarp sem kveður á um birtingu allra gagna sem yfirvöld hafa safnað um Jeffrey Epstein verði tekið til umræðu í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×