Sport

„Byrjaði þegar Ingi fór með okkur í keilu í vikunni“

Andri Már Eggertsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með sigurinn
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með sigurinn Vísir/Anton Brink

Stjarnan varð fyrsta liðið til að vinna Grindavík á tímabilinu. Stjörnumenn rúlluðu yfir Grindvíkinga og unnu 51 stiga sigur 118-67. Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, var afar ánægður með sigurinn.

„Vörnin var þétt, það voru allir einbeittir, samvinnan var góð og við vorum ekki að láta hitann í leiknum hafa áhrif á okkur. Menn voru að keppa í körfubolta án þess að hugsa of mikið og þeir voru í flæðinu,“ sagði Baldur eftir leik sem var mjög ánægður með varnarleik liðsins.

Baldur var ánægður með hvernig hans lið tókst á við lætin sem voru í leiknum og hans menn voru ekki að eyða of mikilli orku í dómarann og andstæðinginn.

„Mér fannst við einbeittir og við gerðum vel í að einbeita okkur af leiknum og ég var ánægður með strákana. Það er ekki annað hægt en að vera ánægður með leikinn í dag. Þetta var frábær frammistaða.“

„Þetta byrjaði þegar Ingi fór með okkur í keilu í vikunni. Þá fékk maður orku og ég var að negla honum í keilunni.“

Ægir Þór Steinarsson, leikmaður Stjörnunnar, hefur verið að glíma við meiðsli en spilaði leik kvöldsins og var frábær með 25 stig og Baldur viðurkenndi að frammistaða hans fór fram úr væntingum.

„Þetta fór fram úr væntingum,“ sagði Baldur að lokum og tók undir að þetta hafi verið besti leikur Stjörnunnar á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×