Handbolti

„Þær eru með frá­bæran línumann“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnar Pétursson hefur úr öðrum leikmönnum að moða á HM en á síðustu stórmótum.
Arnar Pétursson hefur úr öðrum leikmönnum að moða á HM en á síðustu stórmótum. vísir / ívar

Eftir tap í opnunarleiknum á HM í handbolta tekur annað erfitt verkefni við hjá stelpunum okkar í dag, í formi Serbíu, þar sem sérstakar gætur þarf að hafa á línumanninum.

„Þær eru massívar, sterkar líkamlega, grimmar varnarlega, það er mikill þungi í öllum árásunum hjá þeim og þær eru með frábæran línumann sem að hefur verið í toppklassa undanfarin ár. Þær reyna mikið að búa til svæði fyrir hana og dæla miklu inn á hana“ segir landsliðsþjálfari Íslands, Arnar Pétursson, um andstæðing kvöldsins.

Línumaðurinn sem um ræðir er Dragana Cvijic, 35 ára og 183 sentimetra leikmaður Ferencvarosi í Ungverjalandi. Hún var valin besti línumaður HM 2013, þegar Serbía vann silfur, og var einnig besti línumaður Meistaradeildarinnar 2018.

Cvijic hætti í landsliðinu fyrir nokkrum árum en sneri aftur, ásamt Andreu Lekic og núverandi fyrirliðanum Katarinu Krpez-Slezak, eftir HM 2023 þar sem Serbía náði sögulega slökum árangri sem varð til þess að þjálfarinn var rekinn.

Andrea Lekic mun hins vegar ekki kljást við stelpurnar okkar inni á vellinum í kvöld, hún lagði skóna á hilluna eftir að Serbía tryggði sér sætið á HM og er hluti af þjálfarateymi liðsins.

Klippa: Arnar ánægður með frammistöðuna og spenntur fyrir Serbíu

Íslandi gæti þá borist liðsstyrkur á línuna, til að hjálpa til við að stöðva hina ógnarsterku Cvijic.

Elísa Elíasdóttir er búin að jafna sig af meiðslum í öxlinni, sem hún varð fyrir í leik Vals og Blomberg/Lippe skömmu fyrir HM.

Elísa Elíasdóttir er búin að jafna sig af meiðslum í öxlinni, sem hún varð fyrir í leik Vals og Blomberg/Lippe skömmu fyrir HM.

„Við eigum eftir að taka endanlega ákvörðun um það en hún kemur mjög vel út úr öllum testum og er heil“ sagði Arnar en sextán manna leikmannahópur Íslands fyrir leik kvöldsins verður tilkynntur síðar í dag.

Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 20:30 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi. Íþróttadeild Sýnar er í Stuttgart og fylgir stelpunum okkar eftir á meðan mótinu stendur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×