Fótbolti

Segja þetta ekki sann­gjarnt og að þetta yrði bara farsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mason Greenwood hefur spilað mjög vel fyrir Marseille og er frábær leikmaður en nokkrir verðandi liðsfélagar hans í landsliði Jamaíka vilja ekki fá hann inn í liðið.
Mason Greenwood hefur spilað mjög vel fyrir Marseille og er frábær leikmaður en nokkrir verðandi liðsfélagar hans í landsliði Jamaíka vilja ekki fá hann inn í liðið. Getty/Catherine Steenkeste

Mason Greenwood gæti spilað fyrir landslið Jamaíku en mögulegir verðandi liðsfélagar hans hoppa ekki beint af kæti yfir því. 

Jamaíka á enn möguleika á að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í fótbolta næsta sumar. Þar gæti poppað upp leikmaður sem skipti um ríkisfang fyrr á þessu ári. Landsliðsmenn Jamaíka í dag hafa samt lýst yfir óánægju sinni með þá hugmynd að Mason Greenwood gangi til liðs við hópinn fyrir heimsmeistaramótið.

Skipti um ríkisfang

Greenwood, sem á einn landsleik að baki fyrir England, skipti um ríkisfang til Jamaíka fyrr á þessu ári og fékk vegabréf sitt í ágúst, sem opnaði fyrir þann möguleika að hann gæti spilað fyrir þjóð afa sinna og ömmu.

Þrátt fyrir að hinn 24 ára gamli leikmaður hafi gefið kost á sér í leikjum liðsins í undankeppni HM gegn Trínidad og Tóbagó og Bermúda í september þá vonast Michael Ricketts, forseti knattspyrnusambands Jamaíka, til þess að Greenwood muni spila fyrir Reggístrákana fyrir HM, þar sem hann hafi verið spenntur að koma papprínunum í lag.

Í grýttan jarðveg

Það gæti hins vegar fallið í grýttan jarðveg hjá liðsfélögum hans hjá Jamaíka, sem hafa lagt hart að sér til að koma þjóðinni á barminn á HM – með umspilsleiki á milli heimsálfa gegn Nýju-Kaledóníu, og síðan mögulega Lýðveldinu Kongó, fram undan í mars. Leikmenn Jamaíka, Isaac Hayden og Amari'i Bell, eru ósáttir.

„Ég hef aðeins spilað fyrir Jamaíku í eitt ár og það var nokkur mótspyrna gegn mér þegar ég byrjaði, en ég hef spilað tólf leiki og allir geta séð ástríðu mína og hvernig ég spila leikinn,“ sagði Hayden, sem áður lék með Arsenal og Newcastle og er nú hjá QPR, við The Athletic. „Ég gef allt mitt á vellinum og ég vildi vera þar til að hjálpa Jamaíku að komast áfram á HM.“

Með nöfn á heilanum

„Sambandið er með nöfn á heilanum og reynir að fá fleiri leikmenn. Þeir vilja hafa besta liðið á vellinum, en ég sagði við JFF: ‚Ef leikmaður er ekki tilbúinn að skuldbinda sig fyrir síðustu umferð undankeppninnar, nema hann sé meiddur, sé ég ekki hvers vegna hann ætti að ganga til liðs við hópinn í mars eða í lok tímabilsins ef við komumst áfram‘. Það ætti alls ekki að leyfa því að gerast,“ sagði Hayden.

Greenwood var settur í bann af Manchester United í janúar 2022 vegna ásakana sem tengdust ungri konu og stóð frammi fyrir ákærum, þar á meðal fyrir tilraun til nauðgunar og líkamsárás, áður en saksóknari krúnunnar tilkynnti í febrúar 2023 að málið hefði verið látið niður falla. Hann er að endurreisa feril sinn hjá Marseille og er markahæstur í Ligue 1 á þessu tímabili með tíu mörk í tólf leikjum.

Hayden viðurkenndi að Greenwood væri gæðaleikmaður.

„Þetta snýst um grundvallarreglur og heilindi. Ef leikmenn geta bara mætt á svæðið vegna HM, myndi það gera allt saman að farsa. Það myndi segja mikið um leikmanninn og samtökin fyrir að leyfa því að gerast,“ sagði Hayden.

Yrði umdeilt

Varnarmaður Charlton, Bell, sagði að það yrði „umdeilt“ ef Greenwood – eða einhver annar leikmaður, Dwight McNeil hjá Everton er einnig til skoðunar, gengi seint til liðs við hópinn.

„Mörg okkar hafa í mörg ár lagt blóð, svita og tár í að spila fyrir þjóðina, með mörgu sem hefur gengið á bak við tjöldin,“ sagði Bell.

„Við höfum þurft að takast á við allt það. Það myndi ekki virðast sanngjarnt gagnvart fólki sem hefur farið í gegnum allt þetta ferli og fær aldrei annað tækifæri til að spila á HM. Þetta er svolítið umdeilt,“ sagði Bell.

Hann sagði einnig að það þyrfti að eiga sér stað hópsamtal áður en nýr leikmaður gengi til liðs við hópinn.

„Klárlega, sérstaklega þegar um HM er að ræða,“ sagði hann. „Þú vilt hafa góðan anda og góða orku í kringum hópinn. Þú vilt ekki hafa neina fjarlægð á milli leikmanna,“ sagði Bell.

Thomas Tuchel, landsliðsþjálfari Englands, sagði í september að hann hefði ekki talað við Greenwood og tók skýrt fram að framherji Marseille væri ekki í hans hugleiðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×