Bíó og sjónvarp

Þrýstingur Trump dugði til að fá Rush Hour 4 í gegn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Donald Trump elskar Rush Hour-myndirnar og virðist hafa haft áhrif á að fjórða myndin færi í framleiðslu.
Donald Trump elskar Rush Hour-myndirnar og virðist hafa haft áhrif á að fjórða myndin færi í framleiðslu.

Kvikmyndafyrirtækið Paramount Pictures hefur samþykkt að dreifa Rush Hour 4 eftir meintan þrýsting frá Donald Trump Bandaríkjaforseta. Leikstjórinn Brett Ratner snýr aftur en honum var slaufað 2017 í kjölfar ásakana um kynferðislega áreitni en hann er nýbúinn að leikstýra heimildarmynd um forsetafrúnna, Melaniu Trump.

Dægurmálamiðlarnir Deadline og Variety greina frá ákvörðun Paramount.

Fréttirnar berast aðeins nokkrum dögum eftir að fréttamiðillin Semafor hafði eftir heimildarmanni að Trump hefði persónulega beðið Paramount um að taka framhaldsmyndina upp á sína arma. Trump var þá nýbúinn að skrifa færslu á miðil sinn, Truth Social, um það hvað hann elskaði Rush Hour og það vantaði fleiri slíkar myndir.

Paramount sameinaðist í fyrra Skydance, framleiðslufyrirtæki Davids Ellison, í átta milljarða dala samruna sem krafðist samþykkis frá ríkisstjórn Trump. Forsetinn hefur jafnframt hrósað forstjóranum, fyrrnefndum David Ellison, sem er sonur Larry Ellison, stjórnarformanns Oracle og dyggs stuðningsmanns Trump.

Slaufað en sneri aftur með mynd um Melaniu

Fyrri myndirnar þrjár komu út 1998, 2001 og 2007 og nutu gríðarlegra vinsælda hjá áhorfendum enda tóku þar höndum saman „mesta bardagahetja Austurland“ og „mesti kjaftaskur Vesturlanda“ eins og blaðamaður Morgunblaðsins orðaði það 1998.

Þeir Jackie Chan og Chris Tucker voru í aðalhlutverkum í kvikmyndunum Rush Hour.

Bæði Jackie Chan og Chris Tucker munu snúa aftur í fjórðu myndinni. Paramount hefur þó aðeins samþykkt að dreifa myndinni en ekki fjármagna hana að fullu. Ratner hefur undanfarið farið á milli framleiðslufyrirtækja og stúdíóa til að reyna að koma henni í loftið.

Ratner leikstýrði fyrri myndunum þremur áður en honum var slaufað 2017 þegar sex konur stigu fram og ásökuðu hann um kynferðislega áreitni. Warner Bros. riftu í kjölfarið 450 milljón dala framleiðslusamningi við framleiðslufyrirtæki hans. 

Ratner neitaði ásökununum en var slaufað úr Hollywood og hefur hann ekki leikstýrt mynd í fullri lengd síðan 2014. 

Lítið hefur heyrst frá Ratner þar til það bárust fréttir af því að hann myndi leikstýra heimildarmynd um Melaniu Trump fyrir Amazon. Hefur hann væntanlega komið sér í mjúkinn hjá forsetafjölskyldunni við tökur á þeirri mynd sem kemur út í lok janúar 2026.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.