Veður

Vara við flug­hálku í fyrra­málið

Eiður Þór Árnason skrifar
Hálka getur myndast á Reykjanesbraut í fyrramálið.
Hálka getur myndast á Reykjanesbraut í fyrramálið. Vísir/Egill

Flughált getur orðið á vegum víða á morgun þegar það hlýnar með rigningu á láglendi í flestum landshlutum. Gert er ráð fyrir að það rigni í fremur hægum vindi og flughálka geti myndast þegar rigningardropar snöggfrysta á köldum vegum. Á þetta við um Reykjanesbraut og vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu snemma í fyrramálið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Skil ganga yfir landið frá vestri til austurs á morgun og ganga út af Austfjörðum seinni partinn. Víða er hálka á þjóðvegum í kvöld.

Él á stöku stað

Spáð er hægri breytilegri átt og bjart með köflum, en dálítilli él á stöku stað við norður- og vesturströndina, að sögn Veðurstofu Íslands. Frost víða núll til átta stig.

Eftir miðnætti gangi skil inn á vestanvert landið og verði komin austur yfir landið seint annað kvöld. Þeim fylgi suðaustanátt og úrkoma með köflum um allt land, ýmist rigning, slydda eða snjókoma en vindur verði ekki tiltakanlega mikill. Þó megi búast við snörpum vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi um tíma í nótt.

Snýst þetta í vestan og suðvestan fimm til tíu metra á sekúndu með skúrum eða éljum vestanlands í fyrramálið en síðdegis austanlands. Hlýnar í veðri og verður hiti um eða yfir frostmarki seinnipartinn, að sögn Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×