Handbolti

Þjálfun eða ekki? | Guð­mundur kominn heim og í­hugar næstu skref

Aron Guðmundsson skrifar
Guðmundur þjálfaði lið Fredericia með góðum árangri, gerði liðið gildandi í toppbaráttu dönsku úrvalsdeildarinnar og kom því í Evrópukeppni í fyrsta sinn í sögunni. Nú íhugar hann næstu skref á sínum ferli.
Guðmundur þjálfaði lið Fredericia með góðum árangri, gerði liðið gildandi í toppbaráttu dönsku úrvalsdeildarinnar og kom því í Evrópukeppni í fyrsta sinn í sögunni. Nú íhugar hann næstu skref á sínum ferli. EPA/Claus Fisker

Hand­boltaþjálfarinn Guð­mundur Guð­munds­son, hleður nú batteríin hér heima á Ís­landi og íhugar næstu skref á sínum ferli. Hann lokar ekki á neitt og segir það líka koma til greina að gera eitt­hvað allt annað en að þjálfa hand­bolta.

Leiðir Guð­mundar og danska úr­vals­deildar­félagsins Fredericia skildu í septem­ber síðastliðnum en undir stjórn Ís­lendingsins hafði liðið unnið verð­laun í fyrsta sinn í 43 ár, farið alla leið í odda­leik í úr­slitum dönsku deildarinnar og spilað í Evrópu­keppni í fyrsta sinn.

Forráða­menn félagsins töldu hins vegar að kominn væri tími á nýjan mann í brúnna þar sem byggt væri á þeim góða grunn sem byggður hafði verið undan­farin ár og því skildu leiðir.

Loksins kominn aftur heim

Guð­mundur nýtur þess nú að vera kominn heim til Ís­lands þar sem að hann hleður batteríin þessa dagana og skoðar fram­haldið í ró­leg­heitum eftir dvöl er­lendis síðan árið 2009.

„Undan­farin sex­tán ár hefur mér liðið eins og ég sé gestur í mínu eigin heima­landi. Ég hef verið að koma hingað í stuttan tíma yfir jólin og fer svo aftur. Yfir sumartímann hafa verið mis­löng fríin, allt niður í þrjár vikur. Þá er maður að reyna gera allt mögu­legt á stuttum tíma og hefur aldrei liðið eins og maður sé heima. Þetta er í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem mér líður eins og ég sé kominn heim.“

Guðmundur Guðmundsson hefur komið víða við á sínum ferli, meðal annars í þýsku úrvalsdeildinni eins og hér.Mynd/Nordic Photos/Bongarts

„Það er frábær til­finning, þannig lagað séð líður mér vel með það. Engu að síður hefur það verið ótrú­lega góður tími að þjálfa í mis­munandi löndum, mis­munandi lið og stundum stór­kost­leg lið. Það eru forréttindi að hafa fengið að þjálfa þessi lið, er mjög þakk­látur fyrir það.

Þess vegna líður mér mjög vel með að vera kominn heim og ætla að skoða það mjög vel hver mögu­leg næstu skref verða. Þau gætu verið á hand­bolta­sviðinu en það getur líka vel verið að ég geri eitt­hvað allt annað.“

„Hefur staðið eins og klettur við bakið á mér“

Það fer þó ekki fram hjá manni að Guð­mundi líður einkar vel með að vera kominn aftur heim til Ís­lands þar sem að gefst tími til þess að verja meiri tíma með fjöl­skyldunni.

„Dóttir mín var flutt til Ís­lands sau­tján ára og við satt best að segja höfðum áhyggjur af því að hún væri hér ein og svo á ég þrjá syni líka sem ég hef ekki haft mikinn tíma til að sinna heldur undan­farin sex­tán ár. Það er líka gott að vera nær þeim.

Ég er mjög þakk­látur fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið er­lendis en það eru líka fórnir sem maður færir þegar að maður er ekki með sínum nánustu nema konu og dóttur í mínu til­viki. Það er margt sem spilar inn í þetta, ákveðnar fórnir sem maður færir en ég er mjög þakk­látur fyrir að hafa notað þennan tíma í þetta. Fjóla Ósland Hermannsdóttir, eiginkona mín, hefur staðið eins og klettur við bakið á mér allan tímann í þessu.“

Neistinn mun seint slokkna

Guð­mundur hefur komið víða við á sínum ferli, þjálfað á stærstu sviðum hand­boltans bæði með félags- og lands­liðum. Ef svo færi að hann tæki að sér annað verk­efni í þjálfun passar hann sig að loka ekki á neitt.

Guðmundur á góðri stundu sem landsliðsþjálfari Íslands.Getty/Jörg Schüler

„Maður forðast að svara eitt­hvað af­dráttar­laust varðandi framtíðina því það getur ýmis­legt gerst. Ég horfi frekar til þess að taka að mér þjálfun lands­liðs mögu­lega. Það helgast kannski af því að maður á því meiri mögu­leika á því að vera hér heima á Ís­landi. Það held ég að muni spila inn í. Ég er þó opinn fyrir hverju sem er þannig séð.

Neistinn gagn­vart því að halda áfram í þjálfun er þó enn til staðar.

„Ég held að þessi neisti muni seint slokkna. Það er nú kannski það sem stundum hefur verið minn Akkilesar­hæll í þessari þjálfun, ég vil svo mikið, geri svo miklar kröfur. Fyrst til sjálfs míns og svo til leik­manna. Það er svo mikil ástríða þarna, stundum hefur hún aðeins verið of mikil. Fjóla, eigin­kona mín, er alltaf að taka mig í gegn. Minna mig á að ég þurfi aðeins að slaka á. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir mig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×