Lífið

Bjóða til sögu­legrar tölvuleikjaveislu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Reikna má með að fjölmargir nýti tækifærið að spila alls konar tölvuleiki á morgun í Arena Gaming í Turninum á Smáratorgi.
Reikna má með að fjölmargir nýti tækifærið að spila alls konar tölvuleiki á morgun í Arena Gaming í Turninum á Smáratorgi.

Íslenskum tölvuleikjaiðnaði verður gert hátt undir höfði um helgina en á laugardag safnast íslensk tölvuleikjafyrirtæki saman og bjóða áhugasömum Íslendingum að kynna sér leiki, bæði þá sem hafa þegar verið gefnir út og þá sem eru í vinnslu. Samhliða þessu verður íslenskum tölvuleikjum gert hátt undir höfði á Steam sem er stærsti leikjavettvangur í heimi og lykilaðili í dreifingu og sölu tölvuleikja.

„Milljónir tölvuleikjaspilara um allan heim nota Steam, það er stærsta tölvuleikjaplatformið á PC í heiminum. Um helgina verður sett upp á Steam sérstök „Made in Iceland“ síða þar sem íslenskir leikir verða í forgrunni,“ segir Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði hjá Samtökum iðnaðarins.

Hún sér um starfsgreinahóp íslenskra leikjaframleiðenda hjá samtökunum sem sameinast þar undir hatti Samtaka leikjaframleiðenda eða Icelandic Gaming Industry – IGI.

Leikjahönnuðurnir mæta til leiks

„Ég hef unnið með íslenskum leikjafyrirtækjum á síðustu árum og það hefur sjaldan verið jafnmikil gróska í iðnaðinum. Undanfarin ár hefur verið samfelldur vöxtur bæði í útgáfu leikja, útflutningstekjum, veltu og starfsmannafjölda hjá iðnaðinum og við hjá SI og IGI vildum kynna íslenskt samfélag fyrir því hversu frábærir hlutir eru að eiga sér stað hjá þessari atvinnugrein.“

Nanna segir að því hafi verið ákveðið að blása til sérstaks viðburðar, Icelandic Gaming Fest, og bjóða áhugasömum að prófa íslenska leiki og hitta leikjahönnuðina sjálfa. Viðburðurinn verður haldinn í Arena Gaming og er í samstarfi við Íslandsstofu.

Icelandic Gaming Fest er stærsti dagur íslensks tölvuleikjaiðnaðar fram að þessu, aldrei áður hafa íslensk leikjafyrirtæki sameinast með þessum hætti að sögn Nönnu

Milljarða króna velta

„Við viljum sýna almenningi, fjárfestum og samstarfsaðilum að íslensk leikjagerð er lifandi, metnaðarfull og full af hæfileikum. Þetta er mikilvægt augnablik fyrir íslenska leikjagerð og leggur grunn að frekari markaðssókn erlendis og vexti á komandi árum.“

Á viðburðinum verður hægt að prófa yfir tuttugu íslenska leiki. 

„Það eru eflaust ekki allir hér á landi sem gera sér grein fyrir því hversu stór þessi iðnaður er orðinn og hversu mikil tækifæri búa þar fyrir íslenskt hagkerfi.“ 

Velta iðnaðarins nam 80 milljónum dollara árið 2023 sem eru ríflega 10 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins í dag en Nanna segir að unnið sé að uppfærðum hagtölum greinarinnar. 

„Í dag eru starfandi um 20 leikjafyrirtæki á Íslandi en tæplega 500 starfsmenn eru í iðnaðinum. Þetta eru ótrúlegar tölur fyrir lítið hagkerfi og við hvetjum alla til þess að koma, kynna sér málið og fagna þessum árangri með okkur.“

Leikjahátíðin verður á laugardaginn, 22. nóvember, á milli 12 og 16 í Arena Gaming, Turninum, Smáratorgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.