Innlent

Vís­bendingar um að færri ung­lingar drekki á­fengi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Unglingadrykkja
Unglingadrykkja Getty

Vísbendingar eru um að áfengisdrykkja meðal grunnskólabarna sé að minnka samkvæmt Íslensku æskulýðskönnunni. Líðan barna í tíunda bekk fer batnandi en stelpur upplifa meiri kvíða og depurð en strákar.

Átta prósent barna í tíunda bekk drukku áfengi einhvern tímann á þeim þrjátíu dögum áður en Íslenska æskulýðskönnunin var framkvæmd í skólum landsins. Þá höfðu níu prósent þeirra einhvern tímann á ævinni drukkið svo mikið áfengi að þau urðu blindfull.

Það eru færri heldur en árið áður þar sem ellefu prósent tíundubekkinga höfðu drukkið áfengi síðustu þrjátíu daga og tíu prósent þeirra orðið blindfull. Árið 2023 höfðu tólf prósent drukkið áfengi að minnsta kosti einu sinni á dögunum þrjátíu fyrir könnina.

Stelpur eru líklegri en strákar til að hafa drukkið áfengi og til að hafa orðið drukknar. Hins vegar eru strákar líklegri til að nota nikótínpúða, en um átta prósent þeirra notuðu nikótínpúða þrjátíu daga fyrir könnunina. Færri reykja sígarettur en nota nikótínpúða, eða þrjú prósent gegn sjö prósentum.

Vímuefnaneyslan hefur minnkað lítillega, átta prósent tíundubekkinga höfðu notað kannabis á síðustu þrjátíu dögum fyrir könnunina árið 2022 en sex prósent árið 2025.

Stelpum líði verr

Einungis 68 prósent barna í tíunda bekk segja andlegu heilsuna sína góða, þar af 57 prósent stelpna. Rúmlega sjötíu prósent stelpna upplifa kvíða en 36 prósent stráka. Stelpurnar greina einnig frá meiri depurð en strákarnir, rétt rúmlega helmingur þeirra í tíunda bekk finnur fyrir depurð vikulega eða oftar en fjórðungur stráka greinir frá depurð.

Bæði kvíði og depurð fara þó minnkandi með árunum, kvíðinn fer úr 58 prósentum 2022 niður í 54 prósent 2025. Depurðin fer úr 49 prósentum 2022 í fjörutíu prósent 2025.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×