Handbolti

EM í mikilli hættu hjá stærsta stráknum okkar

Sindri Sverrisson skrifar
Þorsteinn Leó Gunnarsson þreytti frumraun sína á stórmóti í byrjun þessa árs, í Króatíu á HM.
Þorsteinn Leó Gunnarsson þreytti frumraun sína á stórmóti í byrjun þessa árs, í Króatíu á HM. vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir að hávaxnasti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handbolta missi af Evrópumótinu í janúar, eftir að hann meiddist í nára. Hann heldur þó í vonina um að ná mótinu.

Hinn 208 sentímetra hái Þorsteinn Leó Gunnarsson meiddist í nára í leik með liði sínu Porto gegn Elverum í Evrópudeildinni í fyrrakvöld.

Í samtali við Handkastið segir Þorsteinn að komið hafi í ljós rifa í nára og liðbandi þar í kring, og hann verði því frá keppni næstu vikurnar. Aðspurður hvort hann nái EM, þar sem Ísland mætir Ítalíu í fyrsta leik þann 16. janúar í Kristianstad í Svíþjóð, svarar Þorsteinn:

„Það verður að koma í ljós. Ég vona það besta og vonandi næ ég EM. Læknarnir segja að þetta gæti tekið 10 vikur en ætla að reyna að ná EM.“

EM hefst eftir aðeins átta vikur og eftir tíu vikur verður milliriðlakeppninni lokið, og aðeins undanúrslit og leikir um sæti eftir.

Þorsteinn Leó lék á sínu fyrsta stórmóti í byrjun árs, þegar Ísland keppti á HM sem fram fór í Króatíu, Noregi og Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×