Innlent

Mæðgurnar svöruðu engu

Árni Sæberg skrifar
Fjölskyldan bjó í þessu einbýlishúsi við Súlunes á Arnarnesinu í Garðabæ.
Fjölskyldan bjó í þessu einbýlishúsi við Súlunes á Arnarnesinu í Garðabæ. Vísir/Bjarni Einarsson

Margrét Halla Hansdóttir Löf, sem ákærð er fyrir að myrða föður sinn og reyna að myrða móður sína, svaraði engum spurningum þegar hún gaf skýrslu í Héraðsdómi Reykjaness við aðalmeðferð máls hennar. Þess í stað las hún upp yfirlýsingu. Móðir hennar gerði slíkt hið sama.

Þetta herma heimildir Vísis en þinghald í málinu er lokað, þrátt fyrir ákvæði laga um meðferð sakamála um að þinghald skuli háð í heyranda hljóði. Bæði Margrét Halla og móðir hennar óskuðu eftir lokuðu þinghaldi og ákæruvaldið hreyfði engum mótbárum.

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins á hendur Margréti Höllu hófst í gær og átti að ljúka með málflutningi í dag. Ekki tókst að ljúka öllum skýrslutökum í tæka tíð fyrir það og því er reiknað með því að málflutningur verði á mánudaginn næstkomandi. Það gerir það að verkum að reikna má með dómi yfir Margréti Höllu eigi síðar en 22. desember næstkomandi miðað við fjögurra vikna viðmið.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála hefur sakborningur heimild til þess að neita að svara spurningum, hvort sem það eru spurningar sækjanda, verjanda, réttargæslumanns brotaþola eða dómara. Sömu heimild hefur vitni sem er nátengdur ættingi sakbornings. Því gátu bæði Margrét Halla og móðir hennar skorast undan að svara spurningum.

Þá hefur lögmaður verið skipaður til að gæta réttinda móður Margrétar Höllu en hún hafði áður hafnað skipuðum réttargæslumanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×