Fótbolti

Fann­eyju skipt út til heiðurs, Elísa lagði upp og Rosengård reddaði sér

Sindri Sverrisson skrifar
Fanney Inga Birkisdóttir varði mark meistara Häcken í dag, stærstan hluta leiksins.
Fanney Inga Birkisdóttir varði mark meistara Häcken í dag, stærstan hluta leiksins. Getty/Alex Nicodim

Stórliðið Rosengård rétt náði að forða sér frá falli úr sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta, í lokaumferð deildarinnar í dag. Elísa Lana Sigurjónsdóttir lagði upp mark fyrir Kristianstad og Fanney Inga Birkisdóttir veitti heiðursskiptingu.

Ísabella Sara Tryggvadóttir kom inná sem varamaður á 79. mínútu hjá Rosengård í dag, í 3-1 sigri á Linköping, en María Catharina Ólafsdóttir Gros lék allan leikinn fyrir Linköping sem var þegar fallið.

Sigurinn dugði Rosengård, sem rakað hefur inn titlum í gegnum tíðina, til þess að enda tveimur stigum fyrir ofan umspilsfallsæti. Þar með er ljóst að Rosengård spilar alla vega áfram í efstu deild á næstu leiktíð.

Fanney Inga varði mark meistara Häcken í 1-0 sigri gegn Piteå en var látin víkja á 83. mínútu svo að sænski landsliðsmarkvörðurinn Jennifer Falk gæti spilað mögulega sinn síðasta leik fyrir meistarana. Samningur Falk er nú að renna út og ljóst að Fanney er hugsuð sem framtíðarmarkvörður Häcken, þó hún hafi þurft að vera ansi þolinmóð á þessari leiktíð.

Elísa Lana Sigurjónsdóttir lagði upp eitt marka Kristianstad í 7-1 stórsigri á Alingsås. Hún kom inná sem varamaður á 57. mínútu, um leið og Alexandra Jóhannsdóttir fór af velli. Kristianstad endaði í 6. Sæti deildarinnar.

Sigdís Eva Bárðardóttir kom inná sem varamaður á 90. mínútu hjá Norrköping, í 2-1 útisigri gegn AIK, og endaði Norrköping í 5. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×