Menning

Lögðu til að Gunnar og Hall­dór deildu Nóbelsverðlaununum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gunnar Gunnarsson rithöfundur í upplestrarferð í Þýskalandi.
Gunnar Gunnarsson rithöfundur í upplestrarferð í Þýskalandi. Gunnarsstofnun

Meirihluti Nóbelsnefndarinnar árið 1955 mælti með sem fyrsta valkosti að bókmenntaverðlaununum yrði deilt milli íslensku rithöfundanna Gunnars Gunnarssonar og Halldórs Laxness. Í lokaatkvæðagreiðslu innan akademíunnar varð niðurstaðan hins vegar sú að Halldór skyldi einn fá verðlaunin.

Þetta er rifjað upp núna í tilefni þess að á morgun, laugardag, verður þess minnst að fimmtíu ár eru frá andláti Gunnars. Gunnarsstofnun, í samstarfi við Bókmenntaborgina og fleiri aðila, stendur þá fyrir minningardagskrá í Veröld, húsi Vigdísar, og Eddu, húsi íslenskunnar.

Á vef Gunnarsstofnunar, Skriðuklaustur, kemur fram að samkvæmt heimildum í skjalasafni sænsku akademíunnar hafi Gunnar Gunnarsson verið tilnefndur til Nóbelsverðlaunanna átta sinnum: 1918, 1921, 1922, 1955, 1960, 1961,1965 og 1969. Næst því að hljóta hin eftirsóttu verðlaun hafi hann komist árið 1955 þegar til stóð að deila þeim milli íslensku rithöfundanna.

Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness á Laugum í Sælingsdal árið 1940.Örnólfur Thorlacius/Gunnarsstofnun

Leiddar hafa verið líkur að því að það hafi komið Gunnari í koll að hafa ritað flest sín verk á dönsku en ekki móðurmálinu og að vinsældir verka hans í Þýskalandi á valdatíma nasista hafi einnig haft sitt að segja,“ segir á vef Gunnarsstofnunar en á endanum hlaut Halldór Laxness afgerandi stuðning innan akademíunnar.

„Að tilheyra engum bókmenntum“ er heiti dagskrárinnar á morgun í tilefni 50 ára ártíðar Gunnars. Hún samanstendur af opnu málþingi og upplestri á Aðventu á tuttugu tungum, einu frægasta verki Gunnars.

Dagskráin hefst í Auðarsal klukkan 9:15 með setningarávarpi Loga Einarssonar menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Fyrsta erindið á málþinginu flytur svo ævisöguritari Gunnars, Jón Yngvi Jóhannsson, bókmenntafræðingur og dósent við Háskóla Íslands.

Fjallað verður um Gunnar, bókmenntir innflytjenda og Aðventu með þátttöku fræðimanna og rithöfunda. Varpað verður ljósi á hvernig Gunnar var á vissan hátt innflytjendahöfundur bæði í Danmörku og á Íslandi og rætt um stöðu höfunda af erlendum uppruna í dag.

Eftir hádegi munu um þrjátíu manns lesa Aðventu á yfir tuttugu tungumálum vítt og breitt um byggingarnar tvær. Vera Illugadóttir les íslensku útgáfuna en aðrir lesarar eru sendiherrar, þýðendur, rithöfundar, fræðimenn og áhugafólk um bókmenntir. Aðventa verður lesin í heild sinni og gefst gestum færi á að ganga milli málheima eða sitja og njóta á sama stað þá rúmu tvo klukkutíma sem lesturinn tekur. Aðgangur er ókeypis á báða viðburði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.