Viðskipti erlent

Paramount, Comcast og Netflix vilja kaupa Warner

Samúel Karl Ólason skrifar
Warner Bros. Discovery rekur meðal annars kvikmynda- og sjónarvarpsþáttatökuver.
Warner Bros. Discovery rekur meðal annars kvikmynda- og sjónarvarpsþáttatökuver. EPA/CAROLINE BREHMAN

Forsvarsmenn þriggja af stærstu skemmtanaafurðafyrirtækjum Bandaríkjanna eru sagðir undirbúa kauptilboð í Warner Bros. Discovery. Fresturinn til að leggja fram tilboð í félagið rennur út þann 20. nóvember en stjórn Warner lýsti því yfir að félagið væri til sölu í heild sinni en einnig væri unnið að því að skipta því upp í tvo hluta.

Um er að ræða fyrirtækin Paramount Skydance, Comcast (sem á meðal annars NBC) og Netflix.

Stjórn Warner vonast til þess að hægt verði að ljúka tilboðaferlinu fyrir áramót, samkvæmt heimildum Wall Street Journal.

Paramount, sem er stýrt af David Ellison, vill kaupa allt fyrirtækið í heild sinni. Comcast og Netflix vilja eingöngu kaupa kvikmynda- og sjónvarpsþáttaver fyrirtækisins og streymisveituna HBO Max.

Eftir að stjórnendur Paramount reyndu fyrst að sameinast við WBD virtist sem síðarnefnda félagið væri ekki til sölu. WBD rekur sjónvarpsstöðvar eins og CNN, Discovery, TNT HBO og fleiri auk þess sem það rekur kvikmyndatökuver og streymisveituna HBO Max, svo eitthvað sé nefnt.

Eftir að Warner Bros. og Discovery Inc. sameinuðust árið 2022 hefur fyrirtækið verið í kröggum vegna umfangsmikilla skulda eftir sameininguna. Verulega hefur verið dregið úr kostnaði hjá félaginu og hefur tekist að lækka skuldir töluvert. Staða sumra sjónvarpsstöðva félagsins hefur þó vakið áhyggjur hjá fjárfestum.

Þess vegna var farið í það að skipta félaginu upp í tvo hluta. Annar hlutinn næði yfir kvikmynda- og sjónvarpsþáttaverin, auk HBO Max. Hinn yrði myndaður utan um sjónvarpsstöðvarnar.

Stjórnendur WBD höfnuðu nokkrum tilboðum frá Paramount og lýstu því svo í kjölfarið yfir að félagið væri til sölu.

WSJ segir að stjórnendur Paramount og Comcast telji að með því að koma höndum yfir eignir WBD verði fyrirtækin í betri stöðu til að berjast gegn öðrum og stærri fyrirtækjum eins og Netflix og Amazon. Paramount og Comcast eru ekki lítil fyrirtæki en þeim hefur gengið illa í samkeppninni á sviði streymisveitna.

Stjórnendur Netflix eru sagðir vilja koma höndum yfir risastórt verkasafn WBD og bæta þannig framboð á streymisveitunni til muna. Þó að vasar Netflix séu taldir mjög djúpir þykja líkur fyrirtækisins til að fá samruna við WBD samþykktan af ríkisstjórn Donalds Trump ekki miklar. Reed Hastings, annar stofnanda Netflix, var ötull stuðningsmaður Kamölu Harris, mótframbjóðanda Trumps í forsetakosningunum í fyrra.

Svipaða sögu er að segja af Comcast en Trump hefur lengi verið mjög gagnrýninn á fyrirtækið og umfjöllun um sig á miðlum þess. Forsvarsmenn fyrirtækisins gáfu nýverið peninga til byggingar veislusals Trumps við Hvíta húsið.

Sjá einnig: Segir Fallon og Meyers næsta: „Gerið þetta NBC!!!“

Forsvarsmenn Paramount Skydance telja sig í bestri stöðu til að fá samrunann samþykktan en fyrirtækið var nýlega myndað úr samruna fyrirtækjanna Paramount og Skydance, eftir að Paramount greiddi Trump bætur vegna viðtals fréttaskýringarþáttarins 60 mínútna við Harris í aðdraganda kosninganna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×