Formúla 1

For­setinn gagn­rýnir For­múlu 1-stjörnurnar: „Ættu að tala minna“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Elkann, forseti Ferrari, vill að sínir ökumenn fari að einbeita sér meira að akstrinum.
John Elkann, forseti Ferrari, vill að sínir ökumenn fari að einbeita sér meira að akstrinum. Getty/David Davies

Lewis Hamilton og Charles Leclerc hafa verið yfirlýsingaglaðir í viðtölum og svo virðist vera sem yfirmaður þeirra sé orðinn þreyttur á því.

John Elkann, forseti Ferrari, hefur beðið ökumenn Formúlu 1-liðsins, þá Hamilton og Leclerc, um að einbeita sér meira að því að keyra bílinn en að tala.

Yfirlýsingar Elkanns koma í kjölfar hræðilegrar helgar hjá liðinu. Hvorugur bíllinn náði að ljúka kappakstrinum í Brasilíu.

Elkann segist vilja að Hamilton og Leclerc einbeiti sér nú að þeim þremur keppnishelgum sem eftir eru af vonbrigðatímabilinu 2025.

„Það er algjörlega nauðsynlegt að ökumenn okkar einbeiti sér að akstrinum og tali minna. Það eru enn mikilvægar keppnir eftir og það er ekki ómögulegt að ná öðru sæti í heimsmeistaramóti bílasmiða,“ sagði Elkann.

Elkann lét þessi orð falla á styrktarsamkomu fyrir Vetrarólympíuleikana sem fara fram í Mílanó og Cortina á næsta ári.

Elkann mun enn fremur hafa bent á að Ferrari njóti velgengni á öðrum sviðum svo lengi sem unnið er sem lið, eins og hann orðaði það.

„Við þurfum ökumenn sem hugsa ekki um sjálfa sig, heldur um Ferrari,“ sagði Elkann.

Ferrari er nú í fjórða sæti í heimsmeistaramóti bílasmiða í Formúlu 1. Næsta keppni er í Las Vegas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×