Erlent

Hundruð þúsunda strang­trúaðra mót­mæla her­kvaðningu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikil reiði ríkir vegna málsins, bæði meðal strangtrúaðra og annarra íbúa sem þykir ósanngjarnt að sömu kröfur séu ekki gerðar til allra.
Mikil reiði ríkir vegna málsins, bæði meðal strangtrúaðra og annarra íbúa sem þykir ósanngjarnt að sömu kröfur séu ekki gerðar til allra. Getty/Ilia Yefimovich

Hundruð þúsunda strangtrúaðra gyðinga söfnuðust saman í Jerúsalem í gær til að mótmæla herskyldu, sem strangtrúaðir hafa hingað til verið undanskildir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mótmæli brjótast út vegna áforma stjórnvalda, sem hafa unnið að því að komast að lagalegri og pólitískri málamiðlun í málinu.

Undanþágan, sem strangtrúuðum er veitt sökum trúarlegrar menntunar þeirra, hefur verið afar umdeild í Ísrael og ekki síst eftir að Ísraelar hófu stríðsrekstur sinn á Gasa í kjölfar árásanna 7. október 2023.

Hundruð hermanna hafa fallið í átökunum og tugþúsundir varaliða verið kallaðir til.

Nokkrar truflanir urðu á daglegu lífi í Jerúsalem vegna mótmælanna.Getty/Mostafa Alkharouf

Hæstiréttur Ísraels komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að engin lagalegur grundvöllur væri fyrir því að veita undanþágu frá herskyldu og að án nýrrar lagasetningar bæri hernum að kalla til strangrúaða rétt eins og aðra.

Tugþúsundir strangtrúaðra manna hafa hingað til sloppið við herskyldu, til að geta sinnt trúarlegri menntun sinni. Þeir segja trúarsannfæringu sína ekki samræmast herskyldu en að þeir sinni skyldu sinni gagnvart öryggi þjóðarinnar með námi og bænum.

Samkvæmt hernaðaryfirvöldum hafa um það bil 80.000 strangtrúaðir gyðingar verið kvaddir í herinn frá því að Hæstiréttur kvað upp dóm sinn en flestir ekki svarað. Nokkrir voru handteknir í kjölfarið, sem vakti mikla reiði í samfélaginu.

New York Times greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×