Erlent

Hundruðum gert að rýma vegna grjóthruns í Ósló

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Karl Johans Gate í Osló.
Karl Johans Gate í Osló. Getty

Nokkrar íbúðarblokkir hafa verið rýmdar og á bilinu 300 til 400 manns hefur verið komið fyrir á nálægu hóteli eftir grjóthrun skammt frá Carl Berners-torgi í Ósló.

Grjóthrunið varð seinni partinn með hávaða og látum en hættan á öðru og öllu alvarlegra grjóthruni er enn talin mikil. Stór hamar sem skagar fram úr hól á milli íbúðablokka í Hasle-hverfi Óslóar er talinn óstöðugur. Jarðfræðingar eru á vettvangi ásamt viðbragðsaðilum.

Rýmingin er yfirstaðin og öllum íbúum blokkanna á skilgreindu hættusvæði hefur verið komið fyrir á hótelinu Radisson Blu Alna. Ein blokkanna er húsnæði fyrir stúdenta og þar eru að auki margar fjölskyldur búsettar. Engar tilkynningar um tjón á húsnæði hafa borist viðeigandi yfirvöldum en einn bíll hlaut minniháttar tjón við grjóthrunið.

Samkvæmt umfjöllun Verdens gang stendur talsverður fjöldi fólks með töskur og poka í kuldanum fyrir utan blokkirnar. Í umfjöllun VG er einnig að finna myndskeið sem íbúi náði af grjóthruninu.

Norska ríkisútvarpið ræddi við Erdem Kilci sem býr á þriðjuhæð í stúdentablokkinni. Hann sagði hávaðann í skriðunni ólýsanlegan. Hann tók einnig fram að hann hefði lengi haft áhyggjur af hamrinum við gluggann hjá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×