Fótbolti

Reynir að endur­heimta marka­metið með því að finna gömul ó­skráð mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marko Arnautovic var tárvotur eftir að hann sló metið en Toni Polster er ekki búinn að gefast upp þótt að hann sé löngu hættur að spila.
Marko Arnautovic var tárvotur eftir að hann sló metið en Toni Polster er ekki búinn að gefast upp þótt að hann sé löngu hættur að spila. Getty/ Guenther Iby/Tobias Heyer

Marko Arnautovic varð á föstudagskvöldið markahæsti leikmaður austurríska fótboltalandsliðsins frá upphafi en sá sem átti markametið áður var ekki alltof hrifinn og ætlar að leita réttar síns fyrir dómstólum.

Arnautovic náði metinu með því að skora fjögur mörk í 10-0 sigri Austurríkis á San Marínó í undankeppni HM.

Arnautovic er þar með kominn með 45 mörk í 128 landsleikjum fyrir Austurríki.

Metið var áður í eigu Toni Polster sem hefur átt metið í næstum því þrjá áratugi. Polster skoraði 44 mörk í 95 landsleikjum frá 1982 til 2000.

Goðsögnin óskaði vissulega arftaka sínum til hamingju en gagnrýndi andstæðinginn San Marínó harðlega eftir fernuna hans Arnautovic. Kicker fjallar um þetta óvenjulega mál.

Hinn 61 árs gamli Polster sagðist í viðtali við ORF vera ánægður fyrir hönd arftaka síns: „Hjartanlega til hamingju. Ég óska honum alls hins besta og vona að mörg fleiri mörk fylgi,“ en Polster reyndi strax að setja hlutina í samhengi: „Marko hefur spilað mun fleiri landsleiki,“ sagði Polster sem er rétt. Arnautovic hefur spilað 33 fleiri landsleiki.

Frammistaða andstæðinga Austurríkis í þessum leik sem metið féll virtist heldur ekki hafa fallið Polster sérstaklega vel í geð.

„Þetta er ekki landslið, þetta er úrval pítsabakara. Ég held að svona slæmt landslið hafi ekki verið til á mínum tíma,“ sagði Polster um San Marínó.

Polster er samt ekki búinn að gefast upp og ætlar að reyna að endurheimta metið sitt í réttarsalnum.

Þrátt fyrir að Polster hafi misst langtímamet sitt ætlar hann að halda áfram að berjast fyrir þremur af landsliðsmörkum sínum sem ekki eru opinberlega viðurkennd.

Hann skoraði þessi þrjú mörk í leikjum árið 1984 en leikirnir voru ekki skráðir sem óopinberir landsleikir. Polster er ekki sáttur við það og vill fá þessi mörk tekin gild.

Þá væri hann kominn með 47 mörk og ætti aftur markametið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×