Skoðun

Lax­ness, Njáll og Egill við góða heilsu í FÁ!

Helgi Sæmundur Helgason skrifar

Í tilefni umræðu síðustu daga um veika stöðu verka Halldórs Laxness og Íslendingasagna í framhaldsskólum langar mig fyrir hönd íslenskudeildar í Fjölbrautaskólanum við Ármúla að koma nokkrum atriðum á framfæri. Rétt er að taka fram að tilgangur þessara skrifa er hvorki að ræða þverrandi lesskilning íslenskra ungmenna né að rökstyðja mikilvægi þess að þessum bókmenntum sé sinnt í framhaldsskólunum. Það er efni í aðra grein. Hér er aðeins ætlunin að upplýsa lesendur um hver staðan er í FÁ.

Í FÁ hefur Sjálfstætt fólk lengi verið lesin í heild í síðasta kjarnaáfanga í íslensku. Þótt mér sé það ekki alveg kunnugt þá kæmi mér ekki á óvart að sagan hafi verið skyldulesning alveg frá því að skólinn var formlega stofnaður árið 1981.

Á yfirstandandi önn var hins vegar ákveðið að breyta til í áfanganum. Sjálfstætt fólk er ekki lengur skyldulesning en í staðinn eru þrjár vikur í upphafi annar helgaðar verkum Laxness. Á þessum þremur vikum kynna nemendur sér líf og feril skáldsins, lesa ljóð eftir hann, kafla úr Alþýðubókinni, smásögu og heimsækja heimili hans að Gljúfrasteini. Að því loknu geta þeir valið að lesa kjörbók eftir Laxness eða aðrar kanónur í íslenskri bókmenntasögu 20. aldar. Gaman er að segja frá því að margir nemendur hafa kosið að lesa bók eftir Laxness, þar á meðal Vefarann mikla frá Kasmír og Sjálfstætt fólk.

Rétt er að nefna að auk Sjálfstæðs fólks var Íslandsklukkan lengi lesin við skólann. Hún var hins vegar tekin af leslista í kjölfar styttingar námstíma til stúdentsprófs og þeirra breytinga á námskrá sem henni fylgdu.

Hvað Íslendingasögur snertir þá er Njála lesin á haustönn í kjarnaáfanga og Egla á vorönn. Nemendur mega lesa kristnitökukaflana í Njálu lauslega enda eru þeir innskot í meginsöguna og efnið kunnuglegt. Þá er venjan sú að sleppa þeim köflum Njálu sem fjalla um málatilbúnaðinn á Alþingi eftir brennu enda eru þeir býsna tyrfnir. Við höfum líka í seinni tíð sleppt því að láta nemendur lesa lokakaflana um hefndir Kára eftir brennu. Í staðinn lesa nemendur útdrætti um efni þeirra kafla. Egla er hins vegar öll lesin en mismikið farið í kveðskapinn.

Höfundur er deildarstjóri íslenskudeildar í Fjölbrautaskólanum við Ármúla.




Skoðun

Sjá meira


×