Körfubolti

LeBron missir af fyrsta leik í fyrsta sinn á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James er að fara að hefja sitt 23. tímabil í NBA deildinni í körfubolta.
LeBron James er að fara að hefja sitt 23. tímabil í NBA deildinni í körfubolta. EPA/CAROLINE BREHMAN

LeBron James verður ekki með Los Angeles Lakers þegar NBA-deildin í körfubolta fer aftur af stað.

Lakers gaf það út í gær að James, sem hefur misst af öllu undirbúningstímabilinu, verður frá keppni í þrjár til fjórar vikur til viðbótar vegna taugabólgu í hægri mjöðm.

Hinn fertugi James missti af fyrstu tveimur undirbúningsleikjum Lakers og hefur enn ekki tekið þátt í heilli æfingu vegna þess sem þjálfarinn JJ Redick lýsti sem taugaertingu í rassvöðva.

Ef James verður áfram frá keppni í allar þessar þrjár til fjórar vikur þá myndi hann missa af opnunarleik Lakers gegn Golden State Warriors sem fer fram þann 21. október.

Shams Charania hjá ESPN greindi frá því í vikunni að James myndi líklega missa af undirbúningstímabilinu en hefði stefnt að því að snúa aftur í opnunarleiknum. Nú er ólíklegt að það gangi upp hjá kappanum. 

James er að hefja sitt 23. tímabil, sem er met, en hann slær þar með met Vince Carter yfir lengsta feril í sögu NBA.

Frá því að James gekk til liðs við Lakers tímabilið 2018–19 er sigurhlutfall Los Angeles 59 prósent (248–171) með hann innan vallar. Þegar hann spilar ekki er sigurhlutfall Lakers aðeins 42 prósent (56-78).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×