Innlent

Á­tján sagt upp í Selja­hlíð

Atli Ísleifsson skrifar
Í Seljahlíð eru einnig þjónustuíbúðir og hafi þeim fjölgað samhliða því að hjúkrunarrýmum hefur fækkað.
Í Seljahlíð eru einnig þjónustuíbúðir og hafi þeim fjölgað samhliða því að hjúkrunarrýmum hefur fækkað. Vísir/Vilhelm

Átján starfsmönnum var sagt upp störfum hjá hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í neðra Breiðholti um liðin mánaðamót. Ráðist var í uppsagnirnar eftir að Reykjavíkurborg sagði upp samningi við Sjúkratryggingar um rekstur tuttugu hjúkrunarrýma í Seljahlíð.

Frá þessu segir í Morgunblaðinu í dag og er vísað í svar Reykjavíkurborgar við fyrirspurn blaðsins.

Fram kemur að uppsagnirnar séu í samræmi við ákvörðun sem tekin hafi verið í borgarstjórn í desember 2022 um lokun hjúkrunarheimilisins, en lokuninni var svo frestað í borgarstjórn í febrúar á síðasta ári. Bent hafi verið á að Seljahlíð væri lítil og þótt óhagkvæm í rekstri, auk þess sem vísað er í í svarinu að rekstur hjúkrunarheimila sé ekki á könnu sveitarfélaga.

Í frétt blaðsins segir að íbúum hafi fækkað síðustu misserin og plássin verið færð til annarra hjúkrunarheimila. Um mánaðamótin hafi enginn búið í Seljahlíð heldur hafi þar verið rekin fjögur skammtímarými og fjögur biðhjúkrunarrými.

Í Seljahlíð eru einnig þjónustuíbúðir og hefur þeim fjölgað samhliða því að hjúkrunarrýmum fækkaði.

Í svari borgarinnar segir enn fremur að áhersla verði lögð á að aðstoða þá sem sagt var upp störfum að finna önnur störf, hvort sem það er innan velferðarsviðs borgarinnar eða á öðrum stöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×