Innlent

Sást blóðugur fyrir utan fjöl­býlis­hús

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað á svæði lögreglustöðvar 4 sem nær yfir Grafarvog, Árbæ og Mosfellsbæ.
Atvikið átti sér stað á svæði lögreglustöðvar 4 sem nær yfir Grafarvog, Árbæ og Mosfellsbæ. Vísir/Ívar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út eftir að tilkynnt var um líkamsárás þar sem sást til blóðugs manns fyrir utan fjölbýlishús.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Ekki er tekið fram hvar atvikið átti sér stað nema það varð á svæði lögreglustöðvar 4 sem nær yfir Grafarvog, Árbæ og Mosfellsbæ. Fram kemur að árásarmaður hafi fundist á staðnum og að málið sé í rannsókn.

Í tilkynningunni segir einnig að tveir hafi verið handteknir í miðborg Reykjavíkur fyrir að brjótast inn í bíl. Báðir voru þeir í annarlegu ástandi og fluttir á lögreglustöð.

Í miðborginni var sömuleiðis maður handtekinn vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna. Í ljós kom að hann var einnig eftirlýstur og var hann því vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Enn fremur var tilkynnt um innbrot á svæði lögreglustöðvar 2 – sem nær yfir Hafnarfjörð og Garðabæ – þar sem búið var að spenna upp glugga og fara inn í geymslu. Málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×