Erlent

Fjöldi án raf­magns vegna vonskuveðurs í Noregi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Bílar og bátar eru á bólakafi.
Bílar og bátar eru á bólakafi. Brannvesenet

Vonskuveður er nú í Noregi vegna stormsins Amy sem gengur þar yfir. Fjöldi heimila er án rafmagns, bílar á bólakafi og gróðureldar geysa. 

Samkvæmt norsku veðurstofunni gæti Amy verið stærsti og skaðlegasti stormur sem gengur yfir Noreg í 25 ár. 

Veðrið er verst á suðurvesturlandi Noregs þar sem appelsínugular og gular veðurviðvaranir eru í gildi. Yfir 170 vegum hefur verið lokað, til að mynda vegna trjáa sem þvera veginn. Mælt er með að fólk haldi sig heima fyrir. Yfir 120 þúsund heimili eru án rafmagns og á einhverjum svæðum er ekkert net- og símasamband.

Varað er við mögulegri flóðhættu, sérstaklega á fjölbýlum svæðum, vegna úrhellisrigningar. Talið er að vatn geti náð frá fimm til fimmtán sentimetra hæð. Á heimasíðu norsku veðurstofunnar segir að yfirvöld þurfi að búast við að byggingar geti orðið fyrir tjóni vegna veðursins.

Á myndskeiðum má sjá bíla á bólakafi fyrir sunnan Ósló.

Einnig eru gróðureldar í Gjøra, um 150 kílómetrum sunnar en Trondheim. Eldarnir eru að öllum líkindum vegna fallina trjáa sem hafa fallið á rafmagnslínur vegna vindhviða. Eldurinn nær yfir um hundrað fermetra svæði.

Svíar hafa einnig fengið að finna fyrir storminum. Samkvæmt sænska ríkisútvarpinu eru einhverjir án rafmagns og tré hafa fallið vegna vindsins. Vindurinn gæti orðið allt að 33 metrar á sekúndu. Búist er við þrjátíu millimetrum af regni og snjókomu á sumum stöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×