Lífið

Ó­raun­veru­legt að kaupa í­búð í mið­borg London

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Diljá Helgadóttir lifir ævintýraríku lífi í London með eiginmanni sínum og tíkinni Paris.
Diljá Helgadóttir lifir ævintýraríku lífi í London með eiginmanni sínum og tíkinni Paris. Aðsend

„Það besta er kannski þessi tilfinning að geta vaknað á morgnana og hugsað: Hvað ætla ég að gera skemmtilegt í dag?“ segir Diljá Helgadóttir lögmaður og framkvæmdastjóri á lögfræðisviði sem lifir draumalífi í stórborginni London þar sem hver dagur er ævintýri. Hún ræddi við blaðamann um lífið úti og nýafstaðna brúðkaupsveislu en hún giftist eiginmanni sínum í annað sinn í ungverskri höll í sumar.

Diljá Helgadóttir er fædd árið 1994 og er gift Snæbirni Vali Ólafssyni lögmanni. 

Þau voru bæði saman í námi við hinn virta háskóla Duke í Bandaríkjunum og eftir útskrift lá leiðin til Bretlands þar sem þau búa ásamt tíkinni Paris.

Hvað varð til þess að þú fluttir til London?

Ég og maðurinn minn vorum í háskólanámi við Duke-háskóla í Bandaríkjunum. Þegar við útskrifuðumst bauðst honum nokkur spennandi störf, bæði í New York og London. 

Við hugsuðum að menningin í London myndi henta okkur betur og það var líka mikill kostur að vera stutt frá Íslandi og öðrum stöðum í Evrópu, auk þess sem við erum nánast á sama tímabelti. Þetta hefur reynst ein besta ákvörðun sem við höfum tekið.

Hjónin Diljá og Snæbjörn búa í London með tíkinni Paris.Aðsend

Hvað hefurðu búið þar lengi?

Frá því 2020, í fimm ár.

London drottning!Aðsend

Hvað ertu að gera þar?

Ég starfa sem framkvæmdastjóri á lögfræðisviði í svissnesku fjármálafyrirtæki sem sérhæfir sig í markaðstækni og fjármálaþjónustu. Þar leiði ég m.a. samningsgerð og stefnumótun í tengslum við markaðsgögn (e. market data), sem eru í raun allar þær upplýsingar sem kauphallir og fjármálamarkaðir framleiða. 

Til dæmis rauntímaverð á hlutabréfum, viðskiptaupplýsingar og söguleg gögn. Ég sinni einnig kennslu í bæði BA og meistaranámi við Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst.

Snæbjörn vinnur sem lögmaður hjá bandarískri lögmannsstofu í borginni. Snæbjörn sérhæfir sig í verðbréfamarkaðsrétti og fjármögnun fyrirtækja og hefur byggt upp einstaka sérþekkingu á skuldabréfamörkuðum.

Við búum í Central London með fallegu útsýni yfir borgina. Það er sérstakt að geta setið saman á kvöldin og horft yfir ljósin í borginni. Við leggjum einnig mikið upp úr því að hreyfa okkur og æfum reglulega, það gefur okkur bæði orku og jafnvægi í annasömu borgarlífi. 

Það er líka mikill lúxus að geta gengið í vinnuna daglega. 

Stærsta gleðin í okkar daglega lífi er þó litli Pomeranian-hundurinn okkar, Paris, sem er sannkallaður fjölskyldumeðlimur en hún er rétt um eins árs og hefur strax ferðast til tíu landa.

Hefurðu búið annars staðar erlendis?

Já, ég hef búið um tíma í Bandaríkjunum, Noregi, Þýskalandi og Belgíu.

Hvernig hefur daglegt líf verið hjá þér í stórborginni?

Lífið hér er ótrúlega fjölbreytt. Ég labba alltaf í vinnuna, tuttugu mínútna göngutúr sem er algjör lúxus í miðborginni. Í hádeginu fer ég oft á æfingu og eftir vinnu tek ég annaðhvort litla voffann minn Paris í göngutúr, mæti á viðburði í tengslum við vinnuna eða hitti vini. 

Ég er hluti af nokkrum klúbbum í London og hér er mjög algengt að hittast á virkum dögum eftir vinnu, það er hluti af menningunni. Ég hef aldrei skilið fólk sem lifir bara fyrir helgar.

Ég er líka meðlimur í Worshipful Company of International Bankers, sem er eitt af fornu Livery-félögunum í City of London og sinnir bæði félagsstarfi og góðgerðarmálum. 

Auk þess kenni ég við Háskólann á Bifröst og Háskólann á Akureyri, svo kvöldin fara stundum í undirbúning fyrir kennslu, hittinga með vinum eða bara að slaka á í spa. Ég fór til dæmis á Konunglegu óperuna í síðustu viku eftir vinnu og í þessari viku á tónleika með snillingnum Daða Frey.

Diljá er dugleg að gera sér dagamun í stórborginni og átti um daginn yndislegt kvöld á óperunni. Aðsend

Hvað er skemmtilegast við lífið úti?

Það sem ég elska mest við lífið hér er hversu mikið er í boði, London er svo ótrúlega fjölbreytt borg.

Ég fer á Wimbledon að horfa á tennis á hverju ári, elska að fara á tónleika, söngleiki og í Royal Opera, og að fara út að borða sem ég geri yfirleitt tvisvar til þrisvar sinnum í viku.

Ég hef líka fullkomlega tekið upp bresku hefðirnar og finnst eftirmiðdagste eða afternoon tea alltaf æði. Það er líka svo gaman að eiga hund hérna, litla Paris fær meira að segja að koma með á klúbba úti. 

Það besta er kannski þessi tilfinning að geta vaknað á morgnana og hugsað: Hvað ætla ég að gera skemmtilegt í dag? Eins og Samuel Johnson sagði eitt sinn: 

„When a man is tired of London, he is tired of life; for there is in London all that life can afford.“

Diljá glæsileg á Wibledon.Aðsend

Hefurðu fundið fyrir heimþrá ?

Nei, ég er með mjög sterkt félagslegt net hér í London og það er svo auðvelt að ferðast til Íslands. Ég held líka góðu sambandi við vini og fjölskyldu á Íslandi, svo mér líður ekki eins Ísland sé langt í burtu.

Sem dæmi á ég hér svo góðar vinkonur að þær skipulögðu fyrir mig óvænta gæsunarferð til Barcelona og Sitges. Þær pökkuðu meira að segja í töskurnar fyrir mig. 

Ég vissi aðeins að þetta yrði bachelorette og að það yrði í Barcelona, en ekkert meira.

Þær komu mér svo ótrúlega skemmtilega á óvart allar í bolum í stíl merktar helginni og ferðin var algjör draumur. 

Við fórum í adrenalíngarð, go-kart, vínsmökkun, ratleik og fleira og svo komu tvær af bestu vinkonum mínum frá Íslandi líka til Spánar. 

Ég kunni svo mikið að meta það og það sýndi mér enn og aftur hversu rík ég er af góðum vinum, bæði hér í London og heima á Íslandi.

Hvað hefur komið þér mest á óvart við lífið úti?

Hversu mikil fjölbreytnin er í London – þú hittir fólk frá öllum heimshornum og það hefur víkkað sjóndeildarhringinn meira en ég bjóst við. 

Ég áttaði mig líka á því að stéttaskiptingin hér er mun meiri en ég hélt, sem mér finnst auðvitað mjög sorglegt; maður hefði haldið að Bretar væru þróaðri en þeir eru í þeim efnum.

Svo er það þessi breska kurteisi, Bretar eiga það til afsaka sig og segja sorry í öllum aðstæðum. 

Konur hér eiga jafnvel til að biðjast afsökunar óþarflega mikið. Ég er oft að stoppa vinkonur mínar og segja þeim að hætta að segja „sorry“ fyrir allt. 

Það er styrkur fólginn í að taka pláss og standa með sjálfri sér!
Diljá segir konur úti oft afsaka sig of mikið en það sé styrkur í því að þora að taka pláss. Aðsend

Sérðu fyrir þér að búa alltaf úti eða kallar Ísland á þig?

Við sjáum okkur alveg búa erlendis áfram. Við keyptum fasteign í London árið 2022 og eigum litla Pomeranian tík, hana Paris. 

Við upplifum lífsgæðin hér í Bretlandi sem mjög góð, það eru ákveðin þægindi að búa í London, með öll tækifærin sem borgin býður upp á, en á sama tíma er auðvelt að ferðast og tengjast bæði Íslandi og Evrópu. 

Ég veit ekki hvort við flytjum heim einn daginn, það er allavega ekki hægt að útiloka það.

Hvað stendur upp úr frá lífinu úti hingað til?

Það sem stendur upp úr hingað til eru nokkrir stórir og litlir hlutir. Að kaupa okkur íbúð í miðborg London eftir aðeins tvö ár hér var dálítið óraunverulegt augnablik. Að fá svo litla Pomeranian-hundinn okkar, Paris, í fyrra var algjör gleði.

En það sem gleður mig mest eru þó allar stundirnar hér með fjölskyldu og vinum. 

Ég elska að halda matarboð og viðburði, er alltaf með kampavín í kælinum og finnst dásamlegt að búa til fallega ostabakka, elda góðan mat og skapa huggulega stemningu. 

Það er dásamlegt hvað lífið í stórborg eins og London getur líka verið hlýtt og persónulegt þegar maður fyllir heimilið af góðu fólki.

Diljá elskar að útbúa veitingar eins og þetta glæsilega veisluborð!Aðsend

Hvað er framundan?

Við erum nýbúin að gifta okkur, ferðuðumst til Palma og Ítalíu í ágúst. Við vorum sömuleiðis að koma frá Bordeaux í Frakklandi til að fagna afmæli Snæbjörns og svo eigum við bæði eftir að keppa í Hyrox. 

Það sem eftir er ársins eru líka nokkrar ferðir sem ég hlakka til. Til dæmis vinkonuferð til Rúmeníu þar sem ein af mínum bestu vinkonum er þaðan, ferð til Danmerkur og svo jólaferð til Edinborgar, sem góðir vinir okkar eru að bjóða okkur í brúðkaupsgjöf.

Nýgift!Aðsend

Talandi um brúðkaup! Hvernig trúlofuðust þið?

Snæbjörn bað mín í Búdapest á átta ára sambandsafmæli okkar. Hann hafði skipulagt allt í laumi – ljósmyndara, fallegan morgun á Fisherman’s Bastion, þar sem hann hafði leigt svalir svo við værum bara tvö.

Hvar giftuði ykkur og hvernig var að velja áfangastaðinn?

Við giftum okkur fyrst 22. febrúar 2025 í Þingvallakirkju á Íslandi í febrúar, þar sem við vildum eiga litla og nána athöfn með nánustu fjölskyldu og vinum, sérstaklega til að geta deilt deginum með eldri ættingjum sem ekki gátu ferðast.

Það var svo hátíðlegt að gifta sig á þessum sögufræga stað, en ég var líka skírð í Þingvallakirkju.

Förðun og hár sá elsku Ale Sif um, hún gerði mig svo fallega og lét mér líða ótrúlega vel. Við gerðum first look, það er að segja sáum hvort annað fyrst í brúðarfötunum, áður en við fórum í kirkjuna. 

Það gaf okkur tækifæri til að eiga augnablik saman, bara við tvö, áður en athöfnin hófst án allra truflana. Þessi stund róaði spennuna, gaf okkur orku og tilfinningalega tengingu sem við tókum með okkur inn í kirkjuna. 

Ég myndi mæla heils hugar með first look fyrir aðra; það gerir daginn persónulegri, skapar fallegar myndir og gerir mann enn tilbúnari að njóta sjálfrar athafnarinnar og allra gesta.

Í athöfninni söng svo sjálf Jóhanna Guðrún, sem er að mínu mati besta söngkona Íslands, sem er jafn falleg að innan sem utan. Það var algjör draumur að hafa hana með okkur. 

Í framhaldinu héldum við veislu í sumarbústað foreldra minna í Úthlíð, rétt hjá Gullfossi og Geysi. Múlakaffi sá um veitingarnar og Ísak Aron, fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins, matreiddi og gerði kvöldið enn hátíðlegra. 

Við enduðum svo kvöldið á fullkominn íslenskan hátt – í heita pottinum og saunu – sem var bæði afslappandi og ótrúlega skemmtilegt eftir fallegan dag.

Svo var það brúðkaupshelgin í júlí 2025. Þá héldum við hina stóru þriggja daga brúðkaupsveislu, fyrst æfingakvöldverður daginn fyrir brúðkaupið, brúðkaupsdagurinn sjálfur og svo detox brunch daginn eftir.

Ég rakst á veislustaðinn fyrir tilviljun á Instagram og hann náði algjörlega þeim víbrum sem mig langaði í. Þar sem við trúlofuðumst í Búdapest var auðvelt að sannfæra Snæbjörn um að halda brúðkaupið í Ungverjalandi – þetta var bæði rómantískt og táknrænt. 

Við vildum líka velja stað sem væri aðgengilegur fyrir vini og fjölskyldu okkar víða að, og það heppnaðist ótrúlega vel. Við vorum með 120 gesti sem komu alls frá þrettán löndum og saman mynduðu þeir yfir tuttugu þjóðerni í einni og sömu veislunni.

Hvað stendur upp úr frá brúðkaupinu?

Stemningin. Þriggja daga veisla með vinum og fjölskyldu frá þrettán löndum, með dásamlegum mat, víni og frábærri tónlist, strengjakvartett í athöfninni, píanóleikara yfir kvöldverðinum og sjö manna hljómsveit um kvöldið. 

Það bættist svo við óvænt atriði eins og flashmob í miðri athöfn, og dansgólfið var fullt fram á morgun. Það var algjörlega magnað!

Á miðnætti steig ég svo á svið með Gimme Gimme a Snae after Midnight í stað Gimme Gimme a Man after Midnight með ABBA – sem vakti mikla lukku. Strax á eftir fylgdu skot þar sem þjónarnir gengu um dansgólfið með skot fyrir gestina.

Diljá söng Gimme Gimme Gimme a Snae after midnight til eiginmannsins.Aðsend

Hvernig gekk að velja kjólinn fyrir stóra daginn?

Það var ótrúlega skemmtilegt ferli að velja kjólinn, ég elska brúðarkjólabúðir og ég mátaði líka yfir þrjátíu kjóla. 

Æfingakvöldverðurinn. Diljá í kjól frá Perfioni Official og skórnir frá Manolo Blahnik. Snæbjörn var í sérsniðnum jakkafötum frá P. Johnson Tailors, bindi frá E. Marinella Napoli og skór frá Joseph Cheaney. Aðsend

Að lokum var ekki séns á að velja bara einn, þannig að ég endaði með þrjá mismunandi kjóla fyrir daginn, svo var ég líka í brúðarkjól í æfingakvöldverðinum. 

Diljá var með þrjá brúðarkjóla. Aðal kjólinn, hannaður á hana frá Dahlia Bridal, kjól númer 2 frá Enzoani London, kjóll 3 er frá Rosie Etienne bridal og svo tvenn pör af hælum frá Manolo Blahnik. Snæbjörn var í sérsniðnum smóking jakka frá La Bowtique. Slaufan og var einnig þaðan. Hönnuðurinn Mickael Korausch hefur klætt Ralp Fiennes fyrir Óskarinn og Jeremy Jordan svo dæmi megi nefna. Smóking buxurnar eru frá Caroline Andrew London. Skórnir eru frá sænska merkinu Myrquist. Aðsend

Mér fannst það líka svo gaman því þá gat ég sýnt ólíkar hliðar af sjálfri mér í gegnum daginn.

Voruð þið með eitthvað séríslenskt á boðstólnum í brúðkaupinu?

Já, lögðum smá áherslu á íslenska tengingu í veislunni. 

Við gáfum öllum gestum brúðkaups trít í formi Þrista frá Sanbó, vorum með nammibar með íslensku nammi frá Freyju og Sanbó sem vakti mikla lukku.

Glæsileg hjón og kampavín! Hringarnir voru frá Hancocks London. Eyrnalokkar Diljár frá Dior, armband frá Van Cleef Arpel. Annað skart frá Hancocks London og Daniela Groza jewellery.Aðsend

Ætlið þið í brúðkaupsferð?

Við fórum í smá „minimoon“ strax eftir brúðkaupið til Gardavatnsins á Ítalíu, þar sem við gistum á Lido Palace – algjör draumur. 

Stóra brúðkaupsferðin verður á næsta ári, líklega til Japans um vorið og svo seinna um árið til Sri Lanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.