Innlent

Vísað burtu af hóteli og svo hand­tekinn í sam­eign

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglu barst meðal annars tilkynning um slys á rafhlaupahjóli, þar sem ökurmaðurinn reyndist illa farinn í andliti og mögulega beinbrotinn.
Lögreglu barst meðal annars tilkynning um slys á rafhlaupahjóli, þar sem ökurmaðurinn reyndist illa farinn í andliti og mögulega beinbrotinn. Vísir/Vilhelm

Þrír gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nú í morgunsárið en 58 mál voru skráð í kerfi lögreglunnar á vaktinni í nótt. Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu.

Lögregla hafði meðal annars afskipti af einstakling sem var til ama á hóteli í miðborginni. Honum var vísað á brott og gekk hann sína leið. Nokkrum klukkustundum síðar var hann hins vegar handtekinn ásamt öðrum, þar sem þeir höfðu brotið sér leið inn í sameign í póstnúmerinu 102. Einn sparkaði í lögreglumann.

Lögregla var einnig kölluð til vegna einstaklings sem var að sparka og lemja í bifreið sem hafði verið lagt í stæði í miðborginni. Ökumaður bifreiðarinnar var enn inni í bílnum og var sá sem óskaði eftir aðstoð. Grunaði, sem var undir áhrifum áfengis, virðist hafa brotið annan hliðarspegil bifreiðarinnar og var handtekinn.

Tilkynnt var um þjófnað á hóteli í miðborginni og um slys, þar sem ökumaður rafhlaupahjóls datt. Var viðkomandi með töluverða áverka í andliti og þá lá grunur á um að hann væri beinbrotinn. Fór hann á bráðamóttöku.

Lögreglu bárust einnig tvær tilkynningar um hávaða, annars vegar í heimahúsi og hins vegar fyrir utan skóla. Fólkið í heimahúsinu lofuðu að lækka en við skólann reyndust þar nemendur á ferð, sem voru að saga spýtu fyrir sýningu á vegum skólans.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni og þá sinnti lögregla umferðarstjórn á Hafnafjarðarvegi/Vífilstaðarvegi, þar sem umferðarljós voru óvirk frá 20 til 21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×