Fótbolti

Sæ­dís og Arna í Meistara­deild Evrópu

Sindri Sverrisson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir fagna með liðsfélögum sínum og stuðningsmönnum í Ungverjalandi í dag.
Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir fagna með liðsfélögum sínum og stuðningsmönnum í Ungverjalandi í dag. vísir/ÓskarÓ

Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir munu spila á stærsta sviði Evrópuboltans í vetur því lið þeirra, Vålerenga frá Noregi, tryggði sér í dag sæti í Meistaradeild Evrópu með sannfærandi hætti.

Norsku meistararnir mættu Ferencváros frá Ungverjalandi í einvígi um sæti í Meistaradeildinni og unnu seinni leikinn í dag á útivelli, 2-1, og einvígið þar með 5-1. Arna lék í dag sinn fyrsta leik fyrir Vålerenga eftir komuna frá FH.

Vålerenga varð þar með tíunda liðið til að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni en undankeppninni lýkur í dag. Átján lið spila í aðalkeppninni og verða fyrstu leikirnir 7. og 8. október. Fyrirkomulag keppninnar verður með sama sniði og í Meistaradeild karla, og spila öll liðin því í sömu deild í stað riðla áður.

Óhætt er að segja að Vålerenga bætist við góðan hóp því fyrir eru örugg í keppninni lið Arsenal, Barcelona, Bayern, Benfica, Chelsea, Juventus, Lyon, PSG og Wolfsburg.

Sædís lék allan leikinn í Ungverjalandi í dag en Arna seinni hálfleikinn. Elise Thornes kom Vålerenga í 2-0 með mörkum á fyrstu sautján mínútum leiksins en Viktória Nagy skoraði eina mark heimakvenna.

Sædís lék einnig í aðalkeppni Meistaradeildarinnar í fyrra en Vålerenga endaði þá neðst í sínum riðli, eftir leiki við Arsenal, Bayern og Juventus. Eina stig norsku meistaranna kom á heimavelli gegn Bayern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×