Innlent

Engan sakaði þegar eldur kviknaði í bát út af Tjörnesi

Kjartan Kjartansson skrifar
Fiskibátnum var fylgd til hafnar í Húsavík í morgun. Myndin er úr safni.
Fiskibátnum var fylgd til hafnar í Húsavík í morgun. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Skipverjum á fiskibát tókst að slökkva eld sem kviknaði í brú hans noður af Tjörnesi snemma í morgun. Björgunarsveitir voru kallaðar út á hæsta forgangi eftir að tilkynning um eldinn barst.

Áhöfnin tilkynnti um eldinn upp úr klukkan hálf fimm og var var þá björgunarsveitin á Húsavík á björgunarbátnum Villa Páls með fimm slökkviliðsmenn um borð ræst út. Þrjú önnur björgunarskip voru síðan send á vettvang, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Fljótlega barst þó tilkynning frá skipverjum að þeim hefði líklega tekist að ráða niðurlögum eldsins sjálfir og að þeir ætluðu að stefna í átt að Húsavík.

Björgunarskipin komu að fiskibátnum fyrir klukkan sex í morgun og fóru þá slökkviliðsmenn um boð. Þeir fundu engan eld né óeðlilegan hita um borð.

Tveimur björgunarskipanna var þá snúið við en Villi Páls og Flatey ÞH fylgdu fiskibátnum til hafnar í Húsavíkur. Þangað komu þau klukkan hálf níu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×