Erlent

Flúði þungvopnaður eftir að hafa myrt tvo lög­reglu­þjóna

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásarmaðurinn flúði inn í skóg eftir að hann skaut tvo lögregluþjóna til bana.
Árásarmaðurinn flúði inn í skóg eftir að hann skaut tvo lögregluþjóna til bana. AP/Simon Dallinger

Gífurlega umfangsmikil lögregluaðgerð á sér nú stað í Ástralíu, þar sem þungvopnaður maður skaut tvo lögregluþjóna til bana og særði þann þriðja. Maðurinn flúði af vettvangi og er hans nú leitað. Hann er sagður vopnaður nokkrum byssum.

Lögreglan segir árásarmanninn heita Dezi Freeman en hann er sagður aðhyllast fjar-hægri stefnu og telur áströlsk stjórnvöld ólögmæt. Á ensku kallast þetta fólk iðulega „sovereign citizen“ og þekkist þetta vel í Bandaríkjunum.

Anthony Albanese segir hugmyndafræði þessa hættulega og mikið áhyggjuefni.

Árásin átti sér stað í norðausturhluta Viktoríufylkis í morgun en þá fóru tíu lögregluþjónar að húsi í bænum Porepunkah. Þangað voru þeir komnir til að gera húsleit, samkvæmt ABC News. Ekki liggur fyrir hvert tilefni húsleitarinnar var.

Freeman skaut 59 ára og 35 ára lögregluþjóna til bana og særði þann þriðja í skotbardaga, sem er ekki sagður í lífshættu, og flúði hann fótgangandi inn í skóg.

Hundruð lögregluþjóna leita hans í skóginum og er meðal annars notast við þyrlur og hunda. Sólin er sest í Ástralíu.

Íbúum á svæðinu hefur verið sagt að halda sig innandyra og hefur almannarýmum verið lokað.

AP fréttaveitan segir að síðast hafi lögregluþjónn verið skotinn til bana í Ástralíu árið 20023. Árið 2022 voru tveir lögregluþjónar svo skotnir til bana af kristnum öfgamönnum og samsæringum sem höfðu lýst yfir hatri í garð lögreglunnar. Mennirnir þrír voru skotnir til bana af lögreglu eftir sex klukkustunda umsátur.

Skotárásir sem þessar þykja sjaldgæfar í Ástralíu en eftir að maður skaut 35 manns til bana í Port Arthur árið 1996 var gripið til umfangsmikilla aðgerða og lög um skotvopnaeign hert verulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×