Fótbolti

Fáni stuðnings­manna Palace til rann­sóknar

Siggeir Ævarsson skrifar
Skilaboðin á fánanum brjóta sennilega siðareglur ensku deildarinnar
Skilaboðin á fánanum brjóta sennilega siðareglur ensku deildarinnar Vísir/Getty

Enska knattspyrnusambandið hefur tekið framferði stuðningsmanna Crystal Palace til athugunar eftir leik Palace og Notthingham Forest í dag en risastór fáni sem gerði rætið grín að Evangelos Marinakis, eiganda Forest, vakti mikla athygli í stúkunni.

Það er óhætt að segja að fáninn dragi ekki beinlínis upp fagra mynd af Marinakis sem er teiknaður akfeitur, með útroðna skjalatösku af peningum þar sem hann beinir byssu að höfði leikmannsins Morgan Gibbs-White. Gibbs-White var nánast búinn að semja við Tottenham í sumar en snérist hugur og skrifaði undir nýjan samning við Forest.

Hann fór síðan í viðtal í kjölfarið þar sem Marinakis stóð álengdar en sumir vildu meina að líkamstjáning Gibbs-White væri á þá leið að hann væri að semja og tala klúbbinn upp þvert gegn vilja sínum.

Á fánanum sem sást í stúkunni í dag segir Gibbs-White: „Herra Marinakis er ekki flæktur í fjárkúgun, hagræðingu úrslita, eiturlyfjasmygl  né spillingu!“ 

Marinakis, sem er umsvifamikill í grísku viðskiptalífi og á m.a. flutningaskipaflota, var ákærður fyrir aðild að eiturlyfjasmygli árið 2018 en málið var að lokum látið niður falla í janúar á þessu ári.

Enska knattspyrnusambandið er nú komið með málið á sitt borð og hvort Palace þurfi að sæta refsingu vegna málsins en það eru mjög strangar reglur um að áhorfendur megi ekki flagga fánum með ærumeiðandi fullyrðingum, ljótu orðbragði eða pólítískum skilaboðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×