Skoðun

Notkun ökkla­banda

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Í gær lýsti Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra því yfir að við ættum að nota ökklabönd í fleiri tilvikum í dómskerfinu en gert er í dag. Kom sú yfirlýsing í kjölfar tillaga starfshóps að breytingu á lögum til verndar brotaþolum. Afstaða fagnar þessari afstöðu dómsmálaráðherra.

Í síðustu viku tilkynntu einmitt norsk stjórnvöld að þau myndu taka ökklaband í notkun fyrir þá einstaklinga sem hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Það er í samræmi við stefnu Afstöðu, um að ávallt skuli beita mögulega vægasta úrræði til frelsissviptingar. Þarna er enda um að ræða hóp einstaklinga sem ekki hefur hlotið dóm. En rétt eins og í Noregi byggist réttarkerfið hér á þeirri grundvallarreglu, að allir skuli teljast saklausir uns sekt er sönnuð.

Afstaða fagnar yfirlýsingum dómsmálaráðherra um mögulega aukningu á notkun ökklabanda og hvetur jafnframt til þess að við fetum í spor Norðmanna um upptöku notkunar ökklabanda fyrir þá sem hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Lærum af Noregi

Í vor hélt Afstaða 20 ára afmælisráðstefnu sem var vel sótt þar sem við beindum einmitt sérstaklega augum okkar til Noregs og fengum til landsins sérfræðinga þaðan, bæði frá fangelsisyfirvöldum sem og félagasamtökum.

Það er enda ekki bara Afstaða sem beinir augum sínum til Noregs í fangelsismálum, heldur einnig stjórnvöld. Afstaða skilaði í gær inn umsögnum til bæði dómsmála- og félagsmálaráðuneytisins vegna fyrirhugaðrar lagasetningar um öryggisvistun. Er í þarfagreiningu dómsmálaráðuneytisins m.a. vísað til svo kallaðra „forvarings“ laga í Noregi. Eins og kemur fram í umsögnum Afstöðu til beggja ráðuneyta hefur að undanförnu farið fram mikil umræða um öryggisúrræði í Noregi, í aðdraganda væntanlegra þingkosninga í byrjun september. Nauðsynlegt er að litið verði til reynslu Noregs þegar íslensk stjórnvöld taka ákvörðun í svo afdrifaríku málefni sem öryggisvistun er, þar sem vísað er til reynslunnar í Noregi.

Afstaða í fararbroddi

Ég mun í næstu viku, ásamt lögfræðingi Afstöðu, fara til Noregs til að eiga fundi með bæði opinberum aðilum sem og félagasamtökum sem eru systursamtök Afstöðu. Þar munum við kynna okkur þær breytingar sem þar eru að verða, eins og víðari notkun ökklabanda, en einnig kynna okkur þekkingu þeirra á öryggisvistun og mikilvægi jafningjastuðnings þar í landi sem er einmitt kjarninn í starfi Afstöðu.

Við fylgdumst í síðustu viku með stjórnmálaumræðum sem fram fóru um fangelsismál í Noregi (s.k. Arendalsuke) þar sem m.a. var fjallað um öryggisvistanir. Stjórnandi þeirrar umræðu var Leo Ajkic, þáttagerðarmaður hjá norska ríkissjónvarpinu NRK sem gerði þætti um „forvaring“ öryggisvistun í Noregi og sýndir voru í sjónvarpi á síðasta ári. Þar tók einnig þátt í umræðunum Hans Marius, sem hafði verið dæmdur í 10 ára öryggisvistun þegar hann var aðeins 19 ára gamall með möguleika á framlengingu. Hann hafði einmitt verið viðmælandi í þáttunum „Leo og hin hættulegu“ (Leo og de farlige) sem fjallar um þá sem sæta öryggisvistun í Noregi. Það væri RÚV til mikils sóma að sýna þessa þætti NRK, sem innlegg í upplýsta umræðu um öryggisvistun. Dómsmálaráðuneytið hefur enda vísað til reynslunnar í Noregi sem fyrirmynd að hugsanlegri lagasetningu um öryggisvistun (forvaring) í gögnum sínum. Við þurfumnefnilega að einsetja okkur að læra í raun af reynslu þeirra þjóða sem við berum okkur svo oft saman við, sér í lagi þegar við tökum afdrifaríkar ákvarðanir eins og í málum sem þessum þar sem ætlunin er að gera grunvallarbreytingu á réttarkerfi okkar.

Afstaða mun halda áfram að læra af reynslu nágrannaríkja okkar á Norðurlöndunum. Það er enda margt sem við getum lært, m.a. frá Noregi, og því þá ekki t.d. að taka upp hér á landi notkun ökklabanda fyrir þá sem eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald? Rétt eins og nú hefur verið gert í Noregi.

Höfundur er formaður Afstöðu- Réttindafélags.




Skoðun

Sjá meira


×