Lífið

„Indælasti dómari í heimi“ er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Frank Caprio naut mikilla vinsælda sem dómari í Providence í Rhode Island.
Frank Caprio naut mikilla vinsælda sem dómari í Providence í Rhode Island. AP

Bandaríski dómarinn og samfélagsmiðastjarnan Frank Caprio er látinn, 88 ára að aldri.

Sonur Caprio greindi frá andlátinu í gær en Caprio hafði glímt við krabbamein í brisi. Á samfélagsmiðlum dómarans er hans minnst fyrir „hlýju“ og „staðfasta trú sína á góðmennskuna í fólki“ en hann hafði fyrir vikið hlotið viðurnefnið „indælasti dómari í heimi“. 

Sonur Caprio, David Caprio hvatti sömuleiðis alla til að gera góðverk til minningar um föður sinn.

Dómarinn Caprio naut mikilla vinsælda vegna hluttekningar sinnar og húmors í dómsalnum, en myndbönd af honum í dómsal birtust í sjónvarpsþættinum Caught in Providence. Myndböndin höfðu saman milljarða áhorfa á samfélagsmiðlum og var Instagram-reikningur hans með 3,4 milljóna fylgjenda.

Caprio dæmdi í rúmlega þúsund málum í heimabæ sínum Providence í Rhode Island áður en sjónvarpsferill hans hófst.

Á meðan á framleiðslu þáttanna stóð hlaut Caught in Providence þrjár tilnefningar til Emmy verðlauna og hlaut Caprio sjálfur tvær slíkar á síðasta ári.

Caprio lætur eftir sig eiginkonu til nærri sextíu ára, Joyce Caprio, fimm börn, sjö barnabörn og tvö barnabarnabörn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.