Lífið

Kvenskælingar svekktir eftir að hafa lent í hakka­vél MR tvisvar í röð

Agnar Már Másson skrifar
Frá úrslitakeppni Gettu betur í 2025.
Frá úrslitakeppni Gettu betur í 2025. Skjáskot/Rúv

Sú óvænta staða kom upp í undankeppni Gettu betur að lið Kvennaskólans og Menntaskólans í Reykjavík kepptu á móti hvort öðru tvisvar í röð. Kvenskælingar, sem töpuðu báðum umferðum, eru svekktir en gömul Gettu betur-kempa segir að óheppni og „feil í kerfinu“ hafi valdið þessum tvöfalda tjarnarslag.

Liðin tvö eru í hópi þeirra sigursælustu í spurningakeppni framhaldsskólanna en Menntaskólinn í Reykjavík (MR) hefur unnið 23 titla en Kvennaskólinn (Kvennó) þrjá, rétt eins og Menntaskólinn á Akureyri og Menntaksólinn í Hamrahlíð.

Liðin voru fyrst dregin á móti hvort öðru í fyrstu umferð í síðustu og gamli skólinn hafði þar betur gegn nágrönnum sínum og sigraði með 29 stig gegn 26 stigum Kvennaskólans. 

Þar sem Kvennaskólinn var stigahæsta tapliðið úr fyrstu umferð hlaut liðið annan séns og var Kvenskælingum hleypt áfram í aðra umferð. 

En þá gerðist það aftur að Kvenskælingar voru dregnir á móti MR í annarri umferð og öttu skólarnir því aftur kappi í gær. Aftur vann MR tjarnarslaginn, þó naumlega, með 28 stig gegn 26 stigum Kvenskælinga. Kvennaskólinn er þá formlega úr leik.

Kvenskælingar svekktir en óska MR góðs gengis

„Þetta er náttúrulega svekkjandi. Okkur finnst auðvitað gaman að keppa á móti MR. Þau eru vinir okkar,“ segir Þórhildur Lilja Hafsteinsdóttir, forseti Keðjunnar, um ósigrana tvo.

Hún kveðst aftur á móti skilja að fyrirkomulag keppninnar þurfi að vera sanngjarnt. Það þýði ekki taka til dæmis Kvennaskólann eða MR út fyrir sviga, þó að þeir hafi unnið keppnirnar oftast. „Það þarf náttúrulega að gefa öllum skólum jöfn tækifæri. Það gæti líka alveg verið að annar skóli sé með miklu betra lið og þá er gott að veita öllum sama tækifæri.“

Þórhildur Lilja Hafsteinsdóttir er forseti Keðjunnar, nemendafélags Kvennaskólans, skólaárið 2025-2026.Ljósmyndanefnd Kvennaskólans

Aðspurð hvort hún telji að setja þurfi einhvers konar varnagla til að koma í veg fyrir dæmi sem þetta – þegar tvö sigursælustu lið keppninnar lenda á móti hvort öðru í bæði fyrstu og annarri umferð – segist Þórhildur ekki hafa neina sérstaka skoðun á því.

„Það er enginn í Kvennó eitthvað reiður, við óskum vinum okkar í MR góðs gengis. Svona er þetta bara, en við höfum enn þá söngvakeppnina [Söngvakeppni Framhaldsskóla og MORFÍs, og við ætlum bara að reyna að brillera þar.“

„Ótrúleg óheppni raunar.“

Stefán Pálsson sagnfræðingur var dómari í Gettu betur árin 2004 og 2005 en hann stingur niður penna á Facebook og segir ósigur Kvenskælinga afleiðing ótrúlegrar óheppni.

„Ein erfiðasta stundin á dómaraferli mínum í Gettu betur var þegar MR og Borgarholtsskóli drógust saman í 2. umferð og ljóst var að annað liðið kæmist ekki í sjónvarp. Í kvöld mættust MR og Kvennó við sömu aðstæður. Kvennaskólinn situr eftir þrátt fyrir að þrjú sjónvarpslið hafi lokið keppni með jafnmörg eða færri stig en Kvenskælingar fengu í hraðaspurningunum einum. Þetta er blóðugt,“ skrifar Stefán

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og Gettu betur-kempa.Vísir/Vilhelm

Í ummælum undir færslu Stefáns velta sumir fyrir sér saunum til að komast undan slíkri stöðu. Pétur Fannberg Víglundsson stingur þar upp á því að tvö stigahæstu tapliðin verði send áfram, frekar en aðeins eitt, eða að einhvers „wildcard“ kerfi verði komið á fót til að koma í veg fyrir svona.

Stefán bætir við undir ummælum Péturs: „Þetta er afleiðing af ótrúlegri óheppni og smá feil í kerfinu.“ Hann segir að ef stigahæstu liðin hefðu verið sett í efri flokk hefði Kvennó endað þar. En í staðinn drógust sömu lið saman aftur. 

„Ótrúleg óheppni raunar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.