Fótbolti

Fyrir­liða­bandið tíma­bundið tekið af Ter Stegen

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekki lengur fyrirliði.
Ekki lengur fyrirliði. AP Photo/Manu Fernandez

Marc-Andre ter Stegen, markvörður Barcelona, hefur ekki sjá dagana sæla undanfarið. Nú hefur fyrirliðabandið verið tekið af honum, allavega um tíma.

Á dögunum var greint frá því að forráðamenn Barcelona væru að íhuga að fara í mál við hinn 33 ára gamla Ter Stegen. Ástæðan er skurðaðgerð sem markvörðurinn fór í fyrr á árinu.

Hann var skorinn upp á bakinu en hefur ekki viljað gefa læknanefnd spænsku deildarinnar, La Liga, ástæðuna fyrir aðgerðinni. Þá ber Barcelona og Ter Stegen ekki saman um hversu lengi hann verður frá keppni. Markvörðurinn segir þrír mánuðir en félagið segir að hann verði frá keppni fjóra mánuði hið minnsta.

Þar sem Ter Stegen gefur ekki grænt ljós á að skýrslan frá aðgerðinni verði send á læknanefnd La Liga þá fær Barcelona ekki leyfi til að skrá nýjan leikmann til leiks í hans stað. Sé leikmaður meiddur í fjóra mánuði eða meir má félagið skrá nýjan til leiks.

Vegna þessa hefur Barcelona ákveðið að taka fyrirliðabandið af markverðinum knáa. Ronald Araújo, varafyrirliði félagsins, tekur því fyrirliðabandinu. Um er að ræða tímabundna ákvörðun þar sem félagið er með agamál hans til rannsóknar. Þangað til er það sameiginleg ákvörðun allra aðila að hinn meiddi Ter Stegen sé ekki fyrirliði liðsins.

Ter Stegen gekk í raðir Barcelona árið 2014 og hefur leikið 422 leiki fyrir félagið. Hann hefur sex sinnum orðið Spánarmeistari og jafn oft spænskur bikarmeistari. Þá hefur hann einu sinni staðið uppi sem sigurvegari Meistaradeildar Evrópu, HM félagsliða og Ofurbikar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×