Íslenski boltinn

Upp­selt á Evrópu­leik KA á Akur­eyri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Með góðum stuðning er allt hægt.
Með góðum stuðning er allt hægt. Vísir/Ernir

Á fimmtudag tekur KA á móti Silkeborg frá Danmörku í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu. Staðan eftir fyrri leikinn er 1-1 og heimamenn eiga því góðan möguleika í leiknum sem verður sýndur beint á SÝN Sport Ísland.

Sumarið 2023 fór KA í lauflétt Evrópuævintýri þegar félagið sló Connah's Quay Nomads frá Wales og Dundalk frá Írlandi úr leik áður en belgíska stórliðið Club Brugge reyndist of stór biti fyrir Akureyringa. Það gæti farið svo að annað Evrópuævintýri sé fram undan á Akureyri.

Hallgrímur Mar Steingrímsson sá nefnilega til þess að KA væri í mjög góðri stöðu fyrir síðari leik liðanna þegar hann jafnaði metin undir blálok leiksins í Silkeborg í síðustu viku. Staðan fyrir leik liðanna á Akureyri því jöfn og allt mögulegt.

KA hefur nú greint frá því að uppselt sé á leikinn á fimmtudaginn kemur og ekki sé unnt að bæta við fleiri miðum.

„Við hvetjum ykkur til að sækja miðana sem allra fyrst en með hverjum miða fylgir armband til að tryggja að enginn komist á svæðið sem ekki á miða,“ segir í færslu KA á Facebook.

Leikur KA og Silkeborgar hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Sýn Sport Ísland 2. Útsending hefst 17.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×