Viðskipti erlent

Trump til­kynnir um við­skipta­sam­komu­lag við Japan

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Frá fundi Trumps og Ishiba í Hvíta húsinu í febrúar síðastliðnum.
Frá fundi Trumps og Ishiba í Hvíta húsinu í febrúar síðastliðnum. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt um að samkomulag um „risastóran“ viðskiptasamning milli Japans og Bandaríkjanna hafi náðst. Samkomulagið felur meðal annars í sér að 15 prósenta tollur verði lagður á japanskar vörur, en Japan muni fjárfesta um 550 milljörðum dollara í Bandaríkjunum.

Síðan tilkynnt var um samninginn í nótt hefur hlutabréfaverð í japönskum bílaframleiðendum tekið gríðarlegan kipp upp á við. Hlutir í Toyota hafa hækkað um fimmtán prósent og Honda um tólf prósent.

Nikkei 225 vísitalan fyrir hlutabréfamarkað í Japan hækkaði um 3,9 prósent, og hefur ekki verið hærri á þessu ári.

Áður hafði Trump lagt 25 prósenta toll á Japan þar sem viðskiptahalli ríkjanna var Japönum í vil. Tollalækkanirnar niður í 15 prósent munu taka gildi fyrsta ágúst næstkomandi.

Trump hafði áður hótað að leggja 25 prósenta toll á japanskar vörur, þar sem viðskiptahallinn milli ríkjanna er Japönum í vil. Um fjórðungur útflutnings Japana til Bandaríkjanna samanstendur af bílum og vörum þeim tengdum.

„Þeir selja okkur milljónir bíla á hverju ári. Við seljum þeim enga bíla af því þeir vilja ekki taka á móti þeim. Þeir taka ekki heldur á móti landbúnaðarvörunum okkar,“ sagði Trump um Japani í síðustu viku.

Samningurinn felur meðal annars í sér að Japanir muni fjárfesta um 550 milljörðum dollara í Bandaríkjunum, sem Trump segir að muni skapa mörg hundruð þúsund störf í Bandaríkjunum. Einnig muni Japanir opna fyrir einhvern innflutning á bandarískum bílum og landbúnaðarvörum.

Shigeru Ishiba, forsætisráðherra Japans, segir að Japanir séu fyrstir til að fá lægri tolla á bíla án þess að settar verði fjöldatakmarkanir á innflutning þeirra. Samkomulagið feli ekki í sér lækkun tolla sem þeir leggja á innflutning.

Trump sagði í færslu á samfélagsmiðlum að samkomulagið væri stærsti viðskiptasamningur sögunnar við Japan.

„Þetta eru gríðarlega spennandi tímar fyrir Bandaríkin, og sérstaklega í ljósi þess að við munum áfram eiga í frábærum samskiptum við Japan,“ sagði Trump.

BBC

Telegraph






Fleiri fréttir

Sjá meira


×