Erlent

Efnt til mót­mæla í Úkraínu vegna umdeildrar laga­breytingar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um er að ræða fyrstu alvöru mótmælin gegn stjórnvöldum sem brjótast út í Úkraínu frá því að Rússar gerðu innrás í landið.
Um er að ræða fyrstu alvöru mótmælin gegn stjórnvöldum sem brjótast út í Úkraínu frá því að Rússar gerðu innrás í landið. Getty/LightRocket/SOPA Images/Patryk Jaracz

Efnt var til mótmæla í Úkraínu í gær eftir að Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti lagði blessun sína yfir frumvarp sem samþykkt var á þinginu, sem þykir grafa undan sjálfstæði þeirra stofnana sem hafa rannsaka spillingu í landinu.

Tvær stofnanir sinna eftirliti vegna spillingar, rannsóknarstofnunin Nabu og sérstakur saksóknari. Samkvæmt nýja frumvarpinu verða þær þó ekki lengur sjálfstæðar í störfum sínum heldur í raun settar undir ríkissaksóknaraembættið.

Gagnrýnendur segja þetta fyrirkomulag munu gera stjórnvöldum auðveldara fyrir með að hafa áhrif á það hvaða mál eru rannsökuð. Um sé að ræða pólitísk afskipti af sjálfstæðum stofnunum og skref aftur á bak í baráttunni gegn spillingu, sem hefur verið viðvarandi vandamál í Úkraínu.

Selenskí var hvattur til að beita neitunarvaldi sínu en undirritaði frumvarpið í gær.

Í daglegu ávarpi sínu sagðist forsetinn hafa rætt við forstjóra Nabu og aðra háttsetta saksóknara. Stofnanirnar myndu áfram sinna hlutverki sínu en „án áhrifa frá Rússum. Það verður að hreinsa út,“ sagði forsetinn.

Efnt var til mótmæla í Kænugarði, Dnipro, Lviv og Odessa, en mótmælendur hafa meðal annars áhyggjur af því að þessi breytta tilhögun muni gera Úkraínumönnum erfiðara fyrir að ganga í Evrópusambandið.

„Við viljum ekki vera eins og Rússland,“ hefur Guardian eftir einum mótmælenda. „Selenskí er ennþá forsetinn okkar en þegar hann breytir rangt munum við benda á það.“

Mótmælendur virtust hafa áhyggjur af því að breytingin þýddi að stjórnvöld hefðu villst af leið og að einræði gæti verið í uppsiglingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×