Fótbolti

„Margt sem við hefðum getað gert betur“

Siggeir Ævarsson skrifar
Karólína í leiknum í kvöld
Karólína í leiknum í kvöld Vísir/Anton Brink

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir 2-0 tap gegn Sviss í kvöld þegar hún ræddi við Aron Guðmundsson, blaðamann Vísis, skömmu eftir leik.

„Bara ömurlega. Hvílík vonbrigði. Gríðarlega súrt, sérstaklega hvað það komu margir að horfa á. Við heyrðum í þeim allan tímann en að geta ekki komið okkur áfram eru hvílík vonbrigði.“

„Við viljum vinna leiki en heppnin er kannski ekki alveg með okkur núna. Sumt sem hefði farið inn í Þjóðadeildinni fór ekki inn núna. „Margt sem við hefðum getað gert betur.“

Karólínu var tíðrætt um stuðninginn frá íslenskum áhorfendum og var sérstaklega svekkt að hafa ekki náð að færa þeim sigur í kvöld en ætlar sér að bæta þeim það upp í næsta leik.

„Við viljum taka þrjú stig fyrir aðdáendurna sem eru komnir, fyrir staffið sem er búið að leggja allt og gera allt fyrir okkur. Við erum búnar að leggja allt í sölurnar til að reyna að ná úrslitum en það hefur bara ekki fallið með okkur þannig að við munum gera allt til að ná í þrjú stig.“

Í upphitun rétt fyrir leik komst Karólína í sýnilegt uppnám og höfðu sumir áhyggjur af að hún yrði ekki með í leiknum. Aron spurði hana út í atvikið og kom í ljós að uppákoman var ekki jafn alvarleg og sjónvarpsmyndavélarnar gáfu til kynna.

„Það var bara stigið á mig!“ - Sagði Karólína og hló. „Það var traðkað á mér og svo aftur í leiknum þannig að maður er aðeins bólginn á ökkla en ég verð orðinn góð á móti Noregi.“

Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að neðan en Karólína er staðráðin í að enda mótið með reisn.

Klippa: Svekkelsi hjá Karólínu eftir tap fyrir Sviss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×