Fótbolti

„Ungur og hæfi­leika­ríkur leikmannahópur“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Oliver Giroud og Hákon Arnar eru orðnir liðsfélagar hjá Lille.
Oliver Giroud og Hákon Arnar eru orðnir liðsfélagar hjá Lille. getty

Markahæsti landsliðsmaður Frakklands frá upphafi, Oliver Giroud, er orðinn liðsfélagi Hákons Arnars Haraldssonar hjá Lille í frönsku úrvalsdeildinni. Franski framherjinn stæðilegi er spenntur fyrir því að miðla sinni reynslu til ungra leikmanna liðsins.

„Mér fannst þetta fullkominn tímapunktur til að snúa aftur í frönsku úrvalsdeildina, þrettán árum eftir að ég fór. Ég hef alltaf litið á Lille sem topplið…

Ungur og hæfileikaríkur leikmannahópur, sem þarf á reynslumiklum leikmönnum eins og mér að halda. Þannig að ég verð líka mikið í því hlutverki“ sagði Giroud eftir að skiptin voru frágengin í gærkvöldi.

Giroud kemur inn í leikmannahópinn á sama tíma og framherjinn Jonathan David er að fara frá félaginu. Lille hefur einnig verið orðað við Hamza Igamane, sem sló í gegn með Rangers í Skotlandi á síðasta tímabili.

Jonathan David var algjör fastamaður í liði Lille þannig að Hákon Arnar þarf að venjast því að spila með nýjan mann fyrir framan sig.

Giroud ætti að geta miðlað góðri reynslu, eftir að hafa eytt níu árum á Englandi með Arsenal og Chelsea þar sem hann vann FA bikarinn fjórum sinnum ásamt Evrópu- og Meistaradeildinni.

Síðan þá hefur hann spilað með AC Milan og unnið ítölsku úrvalsdeildina en á síðasta tímabili var Giroud hjá LA FC í Bandaríkjunum og skoraði lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×