Innlent

„Þar sem vændi þrífst þar þrífst líka man­sal“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðherra boðar í dag til Jafnréttisþings 2025 en yfirskrift þess er Mansal, íslenskur veruleiki - áskoranir og leiðir í baráttunni. Ráðherrann segir tímabært að horfast í augu við þann veruleika að mansal fyrirfinnist á Íslandi.

Jafnréttisþing 2025 fer fram í Hörpu í dag og er markmið þess að fræða almenning um baráttuna gegn mansali og þróun hennar erlendis. Tveir erlendir fyrirlesarar halda erindi, annars vegar saksóknari og sérfræðingur hjá Refsivörslusamvinnustofnun Evrópusambandsins og hinsvegar talsmaður sænskra stjórnvalda í málefnum mansals. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttismála býður til þingsins.

„Þingið þjónar þeim tilgangi núna að ræða um mansal, mansal í kynferðislegum tilgangi og kannski beina kastljósinu að augljósum staðreyndum, að þar sem vændi þrífst þar þrífst líka mansal, pólitískt markmið mitt með svona ráðstefnu er auðvitað að vekja okkur til umhugsunar um þessa staðreynd að þar sem vændi þrífst þar þrífst mansal, mansal er stór angi af skipulagðri brotastarfsemi og þetta er ekki brotastarfsemi sem við viljum á okkar landi.“

Markmiðið sé að draga saman erlenda og íslenska sérfræðinga í málaflokknum.

„Við erum að reyna að komast á þann stað að færa orð yfir í aðgerðir, hér er sænskur lögreglumaður að tala um góða reynslu þeirra af því að berjast gegn þessarar starfsemi, við vitum bakgrunn kvenna sem eru í því að þurfa að selja líkama sinn, þetta eru stelpur sem fara inn í þessa grein, gjarnan ungar og í viðkvæmri stöðu. Hér er líka spænskur saksóknari sem hefur unnið í sínu heimalandi en líka fyrir Eurojust út í Haag þannig við erum að leiða fram samtal helstu sérfræðinga með það að leiðarljósi að geta farið og tekið fastari tökum á þessu vandamáli sem því miður skilur Ísland ekki eftir frekar en önnur lönd, þessi veruleiki hann fyrirfinnst á Íslandi og það er tímabært að fara að horfast í augu við það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×