Íslenski boltinn

Gleymdu búningum svo bæði liðin eru merkt Stjörnunni

Sindri Sverrisson skrifar
Eins og sjá má voru bæði lið í Stjörnubúningi í dag. FHL í hvítu varatreyjunum en Stjarnan í sínum bláa aðalbúningi.
Eins og sjá má voru bæði lið í Stjörnubúningi í dag. FHL í hvítu varatreyjunum en Stjarnan í sínum bláa aðalbúningi. Skjáskot/Stöð 2 Sport

Leikmenn FHL neyddust til að klæða sig í varabúninga Stjörnunnar til að geta spilað leik liðanna í Garðabæ í dag, í Bestu deild kvenna í fótbolta.

Samkvæmt upplýsingum Vísis gleymdust treyjur FHL-liðsins fyrir austan og þar með voru góð ráð dýr.

Málið var hins vegar leyst eins og fyrr segir og þar með spila bæði liðin í Stjörnubúningum í dag, í leik sem hófst klukkan 15. Hér að neðan má sjá þegar liðin gengu inn á völlinn og spurning hvernig gestirnir að austan kunna við sig í lánstreyjunum.

Klippa: FHL í Stjörnubúningum

FHL er nýliði í deildinni og hefur þurft að sætta sig við tap í fyrstu fimm leikjunum á tímabilinu. Liðið er því í leit að sínu fyrsta stigi í dag en Stjarnan hefur unnið tvo leiki og er með sex stig.

Leikur Stjörnunnar og FHL er sýndur á Stöð 2 BD en málið verður eflaust rætt í Bestu mörkunum á Stöð 2 Sport annað kvöld, klukkan 21:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×