Fótbolti

Stefán Ingi og Sveinn Aron báðir á skotskónum í sigur­leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Inga Sigurðarson er einn af markahæstu leikmönnum norsku deildarinnar.
Stefán Inga Sigurðarson er einn af markahæstu leikmönnum norsku deildarinnar. Vísir/Hulda Margrét

Þetta var góður dagur fyrir Stefán Inga Sigurðarson og Sveinn Aron Guðjohnsen í norska fótboltanum. Báðir skoruðu þeir og hjálpuðu sínum liðum að ná í þrjú stig.

Stefán Ingi var í byrjunarliði Sandefjord og skoraði fyrra markið í 2-1 heimasigri á Vålerenga. Markið skoraði hann á 33. minútu eftir stoðsendingu frá Jakob Maslø Dunsby en seinna mark liðsins skoraði Marcus Melchior.

Mark Melchior kom á 77. mínútu eftir að Vålerenga var orðið manni færri en liðið missti mann af velli í stöðunni 1-1 á 63. mínútu.

Stefán Ingi var að skora í þriðja deildarleiknum í röð og er kominn með fimm mörk í sex leikjum. Hann er einn af fjórum markahæstu leikmönnum deildarinnar til þessa.

Sveinn Aron kom inn á sem varamaður og skoraði þriðja mark Sarpsborg 08 í 4-0 sigri í Íslendingaslag á móti HamKam. Sveini var skipt inn á völlinn á 75. mínútu og skoraði á þeirri 88.

Sondre Örjasæter átti stórleik því hann lagði upp mark Seins og skoraði tvö mörk sjálfur. Harald Tangen skoraði fjórða markið.

Þetta var annað deildarmark Sveins Arons á tímabilinu en hann er kominn með fjögur mörk í bikarnum.

Sandefjord er í fimmta sæti með 12 stig en Sarpsborg 08 er sæti neðar með ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×