Enski boltinn

New­cast­le upp í þriðja sætið eftir sigur á Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mættir í 3. sætið.
Mættir í 3. sætið. Serena Taylor/Getty Images

Newcastle United er komið upp í 3. sæti ensku úrvalsdeildar karla eftir 2-0 sigur á Chelsea. Sigurinn gæti haft áhrif á drauma Chelsea um að leika í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Fyrir leik voru liðin jöfn með 63 stig hvort og bar leikurinn þess merkis. Það ef frá eru taldar fyrstu mínútur hans þar sem heimamenn í Newcastle skoruðu það sem virtist lengi vel ætla að reynast sigurmarkið. Þar var að verki ítalski miðjumaðurinn Sandro Tonali eftir undirbúning Jacob Murphy.

Þegar hálftími var liðinn fékk Nicolas Jackson beint rautt spjald eftir að hafa upphaflega fengið gult spjald fyrir keyra með olnbogann í andlit Sven Botman. Eftir að atvikið var skoðað af dómurum leiksins var ákveðið að breyta spjaldinu í rautt og gestirnir manni færri það sem eftir lifði leiks.

Manni færri tókst gestunum ekki að ógna marki Newcastle þrátt fyrir að vera töluvert með boltann. Í uppbótartíma gulltryggði Bruno Guimarães svo sigurinn með frábæru marki.

Lokatölur 2-0 og Newcastle komið upp í 3. sæti með 66 stig. Arsenal er í 2. sæti með einu stigi meira og leik til góða á meðan Manchester City er í 4. sæti með 65 stig. Chelsea og Aston Villa eru svo með 63 stig þar á eftir á meðan Nottingham Forest er með 61 stig í 7. sæti en geta farið upp í 4. sæti með sigri á Leicester City síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×