Innlent

Gunn­laug­ur Claessen er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnlaugur Claessen var varaforseti Hæstaréttar á árunum 2004 til 2005 og forseti réttarins frá 2006 til 2007.
Gunnlaugur Claessen var varaforseti Hæstaréttar á árunum 2004 til 2005 og forseti réttarins frá 2006 til 2007. Vísir/Stefán

Gunnlaugur Claessen, fyrrverandi dómari við Hæstarétt, er látinn, 78 ára að aldri. Hann lést 1. maí síðastliðinn.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun. Gunnlaugur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1966 og tók lögfræðipróf frá Háskóla Íslands árið 1972. Þá stundaði hann nám í kröfurétti við Óslóarháskóla áður en hann sneri aftur heim og starfaði innan stjórnsýslunnar og síðar sem héraðsdómslögmaður og síðar hæstaréttarlögmaður.

Gunnlaugur var skipaður ríkislögmaður 1984, fyrstur manna, og gegndi embættinu í tíu ár, eða þar til að hann var skipaður dómari við Hæstarétt árið 1994. Hann var hæstaréttardómari til haustsins 2013 þegar hann hætti sögum aldurs. Gunnlaugur var varaforseti Hæstaréttar á árunum 2004 til 2005 og forseti réttarins frá 2006 til 2007.

Í æviágripi segir að Gunnlaugur hafi einnig átt sæti í ýmsum stjórnum, meðal annars hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Samtaka um vestræna samvinnu, Skógræktarfélags Reykjavíkur, Slippstöðvarinnar á Akureyri, auk þess að hann var um tíma formaður Lögfræðingafélags Íslands. Hann átti sömuleiðis sæti í réttarfarsnefnd og var formaður nefndar um dómarastörf.

Guðrún Svein­björns­dótt­ir sjúkra­liði er eftirlifandi eiginkona Gunnlaugs og eignuðust þau soninn Sveinbjörn, f. 1986. Gunnlaugur eignaðist einnig tvö börn með fyrrverandi maka, þau Þórdísi, f. 1974, og Hauk, f. 1977.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×