Sport

Persónu­legar á­stæður fyrir brott­hvarfi Vé­steins

Aron Guðmundsson skrifar
Vésteinn Hafsteinsson hefur gegnt starfi afreksstjóra ÍSÍ við góðan orðstír undanfarin tvö ár
Vésteinn Hafsteinsson hefur gegnt starfi afreksstjóra ÍSÍ við góðan orðstír undanfarin tvö ár Vísir/Ívar

Það er af persónu­legum ástæðum sem Vé­steinn Haf­steins­son hverfur nú úr starfi af­reks­stjóra ÍSÍ eftir að hafa starfað sem slíkur við afar góðan orðstír undan­farin tvö ár. Hann er stoltur af því sem náðst hefur að áorka á þeim tíma.

Stórt skref var tekið í um­hverfi af­rek­starfs í íþróttum hér á landi í gær þegar Af­rek­smiðstöð Ís­lands, stjórnstöð af­reksíþrótta hér á landi var ýtt úr vör. En opnun af­rek­smiðstöðvarinnar fylgdu aðrar stórar fréttir því Vé­steinn, sem gegnt hefur starfi af­reks­stjóra ÍSÍ við góðan orðstír undan­farin tvö ár lætur af störfum og tekur við stöðu ráðgjafa innan af­rek­smiðstöðvarinnar.

Það er af persónu­legum ástæðum sem Vé­steinn breytir nú um vett­vang innan ÍSÍ. Kristín Birna Ólafsdóttir tekur við sem afreksstjóri en hún hefur starfað sem sérfræðingur á afrekssviði ÍSÍ síðan 2018, undanfarin tvö ár með Vésteini.

„Það eru persónu­legar ástæður fyrir því að ég verð bú­settur er­lendis og kem til landsins öðru hvoru, fylgi þessu verk­efni eftir og hjálpa þessu flotta fólki að inn­leiða þetta. Ég er stoltur af því sem ég hef inn­leitt á þessum tveimur árum í starfi. Samningur minn við ráðu­neytið rann út í síðustu viku og úr varð smá tíma­punktur sem passar bara vel við að ég fari í starf á bak við tjöldin og starfi meira beint með íþrótta­fólkinu sjálfu sem og þjálfurunum. Það er eigin­lega þar sem að ég er bestur.

Þegar að maður er kominn á þennan aldur og búinn að keyra þetta áfram finnst mér eðli­legt að flott fólk, yngra en ég, eins og Kristín Birna taki við. Hún er vel í stakk búin í að taka við þessu, hefur verið með mér í tvö ár núna og ég hef rosa­lega mikla trú á unga fólkinu. Unga fólið leiðir þetta inn í framtíðina með reynslu­bolta á bak við sig. Þess vegna erum við að ráða inn flotta pró­fessora og doktora í vinnu. Síðan er ég reynslu­bolti í íþrótta­hreyfingunni og verð þá meira á bak við tjöldin. Hjálpa til við að sjá til þess að þetta fari allt vel fram og verði gert eins og á að gera. Ég treysti þessu unga fólki alveg full­kom­lega fyrir því að leiða þetta áfram. Við erum að fara ráða fleiri inn og vonandi ungt lið líka. Þetta er góð blanda af reynslu­boltum og ungu fólki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×