Handbolti

Sól­veig Lára hætt með ÍR

Sindri Sverrisson skrifar
Sólveig Lára Kjærnested gerði frábæra hluti í Breiðholtinu en er nú hætt sem þjálfari ÍR.
Sólveig Lára Kjærnested gerði frábæra hluti í Breiðholtinu en er nú hætt sem þjálfari ÍR. vísir/Diego

Sólveig Lára Kjærnested er hætt sem þjálfari kvennaliðs ÍR í handbolta eftir frábæran árangur á síðustu þremur árum.

Segja má að ÍR hafi verið á stanslausri uppleið undir stjórn Sólveigar Láru sem tók við liðinu í næstefstu deild og skilaði því upp í Olís-deildina í fyrstu tilraun.

Liðið komst svo til að mynda í undanúrslit Powerade-bikarsins í fyrra og í undanúrslit Íslandsmótsins í ár.

Eftir að hafa slegið út Selfoss í átta liða úrslitum féll ÍR úr keppni gegn ríkjandi meisturum Vals í undanúrslitunum á föstudaginn. Leikirnir við Val reyndust því síðustu leikir ÍR undir stjórn Sólveigar Láru.

Í tilkynningu segir að stjórn handknattleiksdeildar ÍR þakki Sólveigu Láru fyrir frábæran tíma og bindi vonir við að hún haldi áfram að láta til sín taka innan félagsins, eins og það er orðað.

„Takk fyrir minningarnar, stuðninginn og vináttuna. Það er erfitt að kveðja en afar dýrmætt að hafa getað snúið aftur heim og fundið ÍR hjartað á ný. Takk fyrir mig. Áfram ÍR alltaf!“ segir Sólveig Lára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×