Fótbolti

„Ekki eðli­legt að vera svona góður sau­tján ára“

Aron Guðmundsson skrifar
Henry hlóð Lamine Yamal lofi eftir frammistöðu ungstirnisins gegn Inter Milan í gær
Henry hlóð Lamine Yamal lofi eftir frammistöðu ungstirnisins gegn Inter Milan í gær Vísir/Samsett mynd

Franska knatt­spyrnugoðsögnin Thierry Henry hlóð ungstirni Barcelona, Lamine Yamal, lofi eftir frammistöðu Spán­verjans í leik Barcelona og Inter Milan í undanúr­slitum Meistara­deildar Evrópu í gær. Henry segir Yamal hafa spilað líkt og hann hafi verið and­setinn.

Yamal varð í gær yngsti leik­maðurinn í sögu spænska stór­veldisins Barcelona til þess að ná þeim áfanga að spila 100 leiki fyrir aðallið félagsins, 17 ára og 291 daga gamall og segja má að hann hafi haldið upp á þann áfanga með stór­kost­legri frammistöðu.

Í stór­skemmti­legum fyrri undanúr­slita­leik Barcelona og Inter Milan, sem endaði með 3-3 jafn­tefli, mætti segja að Lamine Yamal hafi lyft sér upp á hærra svið. Ungstirnið hefur sýnt það áður hvers hann er megnugur en stöðug­leikinn sem hann er farinn að sýna, stór­leik frá stór­leik, lætur menn klóra sér í kollinum varðandi það hvort að þarna sé á ferðinni leik­maður sem nái álíka stalli og leik­menn á borð við Pelé, Mara­done, Lionel Messi og Cristiano Ron­aldo svo ein­hverjir séu nefndir.

Thierry Henry, einn besti leik­maður ensku úr­vals­deildarinnar frá upp­hafi og fyrr­verandi leik­maður stór­liða á borð við Arsenal og Barcelona, var yfir sig hrifinn af frammistöðu Yamal.

„Það sem að við urðum vitni að frá Lamine Yamal, það er ekki eðli­legt að vera svona góður aðeins 17 ára gamall,“ sagði Henry eftir leik Barcelona og Inter Milan á CBS Sports í gær. Ég er ekki ein­göngu að tala um það hvað hann gerir á boltanum. Heldur einnig hversu var hann er um sig, hversu ró­legur, hvernig hann sér leikinn, verst og pressar. Þetta er ekki eðli­legt. Við erum búin að ræða þessa hundrað leiki sem hann er búinn að spila á þessum aldri. Þetta er ekki eðli­legt í raun og veru. Ég veit ekki hvað ég er að horfa á, hverju ég er að verða vitni að. Hann spilaði eins og and­setinn maður.“

Aðeins 17 ára gamall hefur Yamal komið að fimmtíu mörkum fyrir aðallið Barcelona, skorað 22 mörk og gefið 28 stoð­sendingar. Hundrað leikir fyrir aðallið Barcelona á þessum aldri er hreint út sagt magnað og borið saman við stór­stjörnurnar Lionel Messi og Cristiano Ron­aldo á þessum aldri skarar Yamal fram úr.

Skilti sem sýnt var í Meistaradeildarmörkunum á Stöð 2 Sport í gærkvöldi varpar ljósi á hversu magnaður Lamine Yamal er akkúrat þessa stundina aðeins 17 ára gamallMeistaradeildarmörkin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×