Erlent

Mæðgur al­var­lega særðar eftir sprengingu í út­hverfi Stokk­hólms

Kjartan Kjartansson skrifar
Sænskir lögreglumenn að störfum í Stokkhólmi. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti.
Sænskir lögreglumenn að störfum í Stokkhólmi. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti. Vísir/Getty

Stúlka á leikskólaaldri og móðir hennar eru alvarlega særðar eftir að sprengingu á heimili þeirra í Tumba, úthverfi Stokkhólms í gærkvöldi. Enginn hefur verið handtekinn vegna sprengingarinnar en ekki er talið að mæðgurnar hafi verið skotmark hennar.

Sprengingin varð um klukkan 23:40 að staðartíma í gærkvöldi, að sögn sænska ríkisútvarpsins. Nágranni sem kom mæðgunum til hjálpar segir að þær hafi verið sofandi saman í herbergi en faðirinn og eldra systkini hafi verið annars staðar í íbúðinni.

Talsmaður lögreglunnar í Stokkhólmi segir sprenginguna hafa orðið inni í húsinu en ekki sé ljóst hvað sprakk. Talið sé að einhver hafi valdið sprengingunni sem er sem stendur rannsökuð sem alvarleg ógn við almannaöryggi. Talsmaðurinn segir að skilgreiningin á glæpnum gæti tekið breytingum eftir því sem rannsókn vindur fram.

Samkvæmt heimildum ríkisútvarpsins var skotmark sprengingarinnar maður sem býr ekki í húsinu. Svo virðist sem að tilræðismaðurinn eða mennirnir hafi verið húsavillt.

Eldur kviknaði við sprenginguna og er húsið sagt mikið skemmt af völdum hans. Slökkviliði tókst þó að koma í veg fyrir að eldurinn breiddi úr sér til nærliggjandi húsa.

Hrina sprenginga hefur átt sér stað í Svíþjóð frá áramótum. Í lok janúar sagði lögregla að skýr tengsl væru á milli þeirra og glæpasamtaka sem beittu ofbeldi til þess að kúga fé út úr fólki. Á þeim tíma hafði verið tilkynnt um þrjátíu sprengingar frá áramótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×