Skömm Reykjavíkurborgar: Hvernig er staðan í leikskólum borgarinnar? Elín Einarsdóttir skrifar 25. nóvember 2024 10:32 Nýlega var mikið rætt um ákvörðun Kennarasambands Íslands um að bjóðast til að fresta verkföllum gegn því að brogin greiði kennurum laun á þeim tíma sem verkfall hefur staðið. Í mínum huga er þetta góð lausn sem skilar skömminni þangað sem hún á heima. Sem leikskólakennari hjá Reykjavíkurborg vil ég nota tækifærið til að benda á þau alvarlegu vandamál sem leikskólakerfið okkar glímir við og hvernig borgaryfirvöld bera ábyrgð á skammarlegu ástandi leikskólanna okkar. Ástand leikskólahúsnæðis: Mygla og tafir Við kennarar í leikskólum höfum oft látið í okkur heyra, en fáir virðast meðvitaðir um þá óviðunandi aðstöðu sem bæði börn og starfsfólk margra leikskóla í borginni þurfa að sætta sig við. Til að mynda má nefna dæmið um leikskólann Árborg í Árbæjarhverfi. Í október 2022 var húsnæðinu lokað vegna alvarlegra mygluskemmda. Starfsfólk þurfti í skyndi að flytja starfsemina í bráðabirgðahúsnæði í Selásskóla, þar sem útiaðstaða barna er lítil sem engin. Tveimur árum síðar hefur Reykjavíkurborg enn ekki tekið skóflustungu að nýju húsnæði fyrir börnin og starfsmenn skólanna. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum. Á sama tíma virðist Reykjavíkurborg ekki skorta fjármagn í mörg umdeild verkefni. Árið 2021 var ákveðið að breyta gömlu atvinnuhúsnæði á Kleppsvegi í leikskóla. Frumkostnaður var áætlaður 623 milljónir, en vegna ófyrirséðra vandamála fór kostnaðurinn upp í 989 milljónir. Þegar húsið opnaði, reyndist það ekki uppfylla grunnkröfur um öryggi, og árið 2024 þurfti að loka því og flytja börnin í óásættanlegt bráðabirgðahúsnæði í Ármúla. Heildarkostnaður við þennan „hönnunarleikskóla“ nam á endanum 2,3 milljörðum. Það er erfitt að sjá hvernig slíkar ákvarðanir bæta leikskólakerfið. Mönnunarvandi leikskóla: Af hverju vill fólk ekki starfa í leikskólum? Leikskólarnir í Reykjavík glíma við alvarlegan mönnunarvanda. Það er ekki erfitt að átta sig á ástæðunum: Lág laun: Hvorki kennarar né annað starfsfólk leikskólanna fá laun í samræmi við þá ábyrgð sem starfið krefst. Óásættanleg vinnuaðstaða: Hávaðamengun á leikskólum er langt yfir viðmiðum Vinnueftirlitsins, en við getum varla gengið með heyrnahlífar á vinnustaðnum. Fjöldi barna á hvern starfsmann: Reykjavíkurborg notar kerfi sem heitir Vala til að ákvarða fjölda starfsmanna á hverri deild. Til dæmis telur Vala að á deild með 18 fjögurra ára börnum nægi einn og hálfur starfsmaður. Í reynd þýðir þetta að aðeins einn starfsmaður er til staðar ef „hálfur“ starfsmaður er í styttri vinnuviku. Þetta skapar óöryggi bæði fyrir börn og starfsfólk. Fjárhagslegir erfiðleikar leikskóla: Hvernig er staðan? Reykjavíkurborg hampar sér fyrir að hafa stytt vinnuvikuna hjá starfsmönnum sínum, en sú stytting hefur ekki komið leikskólum til góða. Engar aukafjárveitingar hafa verið gerðar til að ráða afleysingafólk fyrir þá sem nýta sér styttinguna. Þetta þýðir að starfsfólkið sem er ekki í styttingu þarf að bera meiri byrðar. Fjárveitingar til daglegs rekstrar leikskóla eru jafnframt of lágar. Ég veit um leikskóla þar sem starfsfólk hefur auglýst á Facebook eftir efni til að nota í vinnu með börnunum, því kvóti leikskólans er uppurinn. Starfsfólk er jafnvel að sækja efnivið í frítíma sínum fyrir eigin reikning. Þetta ástand er ólíðandi. Hvað getum við gert? Þessi pistill er ekki skrifaður aðeins til að gagnrýna heldur einnig til að vekja athygli á mikilvægi þess að breyta kerfinu: Reykjavíkurborg þarf að gera raunhæfa áætlun til að bæta aðstöðu í leikskólum. Húsnæði þarf að vera öruggt og hvetjandi fyrir börn og starfsfólk. Hækka þarf laun og bæta starfsaðstæður til að laða fólk að starfi í leikskólum. Endurskoða þarf mönnunarviðmið til að tryggja að starfsfólk hafi raunhæfan fjölda barna í sinni umsjá. Taka þarf opinskáa umræðu við foreldra og almenning um ástand leikskólanna, því það skiptir okkur öll máli hvernig er komið fram við börnin okkar. Þetta eru nokkur atriði sem við verðum að ræða. Samtök okkar kennara hafa í mörg ár bent á þessa alvarlegu stöðu og barist fyrir breytingum, en lítið hefur breyst. Þetta ástand, og árásir á samtök okkar nú þegar skilningsleysi stjórnvalda hefur neytt okkur í verkfall, særir okkur sem störfum með börnum og sjáum hversu miklu betra þau eiga skilið. Við vonum að með þessu kalli fái mál málanna þá athygli sem þau þurfa og verðskulda. Takk fyrir mig. Höfundur er leikskólakennari. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kennaraverkfall 2024 Leikskólar Skóla- og menntamál Mest lesið Glæpur eða gjörningur? Sigfús Aðalsteinsson,Baldur Borgþórsson Skoðun Dýrkeypt vinavæðing á vakt lögreglustjórans Ólafur Hauksson Skoðun Börn í biðröð hjá Sýslumanni Helga Vala Helgadóttir Skoðun Svöng Eflingarbörn Guðmundur Ingi Þóroddsson Skoðun Úr myrkri í von – Saga Grindvíkinga Bryndís Gunnlaugsdóttir Skoðun Ríkisstjórnin hækkar leigu stúdenta Arent Orri J. Claessen,Viktor Pétur Finnsson Skoðun COP30, Ísland, lífsskilyrði og loftslagsvá Kamma Thordarson Skoðun Orkuskiptin heima og að heiman Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Annar í feðradegi…og ég leyfi mér að dreyma Ólafur Grétar Gunnarsson Skoðun Pops áttu p? Benedikt S. Benediktsson Skoðun Skoðun Skoðun Íslandsklukkan: Markleysa frá upphafi Gunnar Salvarsson skrifar Skoðun Um stöðu íslenskukennslu á Íslandi Kjartan Jónsson skrifar Skoðun Gasa: Löng og torfarin leið til endurreisnar Philippe Lazzarini skrifar Skoðun Pops áttu p? Benedikt S. Benediktsson skrifar Skoðun Ríkisstjórnin hækkar leigu stúdenta Arent Orri J. Claessen,Viktor Pétur Finnsson skrifar Skoðun Annar í feðradegi…og ég leyfi mér að dreyma Ólafur Grétar Gunnarsson skrifar Skoðun Orkuskiptin heima og að heiman Eiríkur Hjálmarsson skrifar Skoðun Fyrir hvað stöndum við? Brynja Hallgrímsdóttir skrifar Skoðun COP30, Ísland, lífsskilyrði og loftslagsvá Kamma Thordarson skrifar Skoðun Dýrkeypt vinavæðing á vakt lögreglustjórans Ólafur Hauksson skrifar Skoðun Svöng Eflingarbörn Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar Skoðun Úr myrkri í von – Saga Grindvíkinga Bryndís Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Þak yfir höfuðið er mannréttindi ekki forréttindi Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar Skoðun Glæpur eða gjörningur? Sigfús Aðalsteinsson,Baldur Borgþórsson skrifar Skoðun Við erum að vinna fyrir þig Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Börn í biðröð hjá Sýslumanni Helga Vala Helgadóttir skrifar Skoðun Sofandaháttur Íslands í nýrri iðnbyltingu Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Byggjum fyrir síðustu kaupendur Friðjón R. Friðjónsson skrifar Skoðun Það sem við segjum er það sem við erum Guðný Björk Pálmadóttir skrifar Skoðun Óásættanleg bið, fordómar og aðrar hindranir í kerfinu Helga F. Edwardsdóttir skrifar Skoðun Má bjóða þér einelti? Linda Hrönn Bakkmann Þórisdóttir skrifar Skoðun Fyrir hverja eru ákvarðanir teknar? Helga Þórisdóttir skrifar Skoðun Þá var „útlendingur“ ekki sá sem kom frá framandi heimsálfum Martha Árnadóttir skrifar Skoðun Kann barnið þitt að hjóla? Sara Björg Sigurðardóttir skrifar Skoðun Er ég Íslendingur? En þú? Jón Pétur Zimsen skrifar Skoðun Samkeppni um hagsæld Ríkarður Ríkarðsson skrifar Skoðun Inngilding – eða aðskilnaður? Jasmina Vajzović Crnac skrifar Skoðun Húsnæðispakki fyrir unga fólkið og framtíðina Anna María Jónsdóttir skrifar Skoðun Þegar úrvinnsla eineltismála klúðrast Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Virðum réttindi intersex fólks Daníel E. Arnarsson skrifar Sjá meira
Nýlega var mikið rætt um ákvörðun Kennarasambands Íslands um að bjóðast til að fresta verkföllum gegn því að brogin greiði kennurum laun á þeim tíma sem verkfall hefur staðið. Í mínum huga er þetta góð lausn sem skilar skömminni þangað sem hún á heima. Sem leikskólakennari hjá Reykjavíkurborg vil ég nota tækifærið til að benda á þau alvarlegu vandamál sem leikskólakerfið okkar glímir við og hvernig borgaryfirvöld bera ábyrgð á skammarlegu ástandi leikskólanna okkar. Ástand leikskólahúsnæðis: Mygla og tafir Við kennarar í leikskólum höfum oft látið í okkur heyra, en fáir virðast meðvitaðir um þá óviðunandi aðstöðu sem bæði börn og starfsfólk margra leikskóla í borginni þurfa að sætta sig við. Til að mynda má nefna dæmið um leikskólann Árborg í Árbæjarhverfi. Í október 2022 var húsnæðinu lokað vegna alvarlegra mygluskemmda. Starfsfólk þurfti í skyndi að flytja starfsemina í bráðabirgðahúsnæði í Selásskóla, þar sem útiaðstaða barna er lítil sem engin. Tveimur árum síðar hefur Reykjavíkurborg enn ekki tekið skóflustungu að nýju húsnæði fyrir börnin og starfsmenn skólanna. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum. Á sama tíma virðist Reykjavíkurborg ekki skorta fjármagn í mörg umdeild verkefni. Árið 2021 var ákveðið að breyta gömlu atvinnuhúsnæði á Kleppsvegi í leikskóla. Frumkostnaður var áætlaður 623 milljónir, en vegna ófyrirséðra vandamála fór kostnaðurinn upp í 989 milljónir. Þegar húsið opnaði, reyndist það ekki uppfylla grunnkröfur um öryggi, og árið 2024 þurfti að loka því og flytja börnin í óásættanlegt bráðabirgðahúsnæði í Ármúla. Heildarkostnaður við þennan „hönnunarleikskóla“ nam á endanum 2,3 milljörðum. Það er erfitt að sjá hvernig slíkar ákvarðanir bæta leikskólakerfið. Mönnunarvandi leikskóla: Af hverju vill fólk ekki starfa í leikskólum? Leikskólarnir í Reykjavík glíma við alvarlegan mönnunarvanda. Það er ekki erfitt að átta sig á ástæðunum: Lág laun: Hvorki kennarar né annað starfsfólk leikskólanna fá laun í samræmi við þá ábyrgð sem starfið krefst. Óásættanleg vinnuaðstaða: Hávaðamengun á leikskólum er langt yfir viðmiðum Vinnueftirlitsins, en við getum varla gengið með heyrnahlífar á vinnustaðnum. Fjöldi barna á hvern starfsmann: Reykjavíkurborg notar kerfi sem heitir Vala til að ákvarða fjölda starfsmanna á hverri deild. Til dæmis telur Vala að á deild með 18 fjögurra ára börnum nægi einn og hálfur starfsmaður. Í reynd þýðir þetta að aðeins einn starfsmaður er til staðar ef „hálfur“ starfsmaður er í styttri vinnuviku. Þetta skapar óöryggi bæði fyrir börn og starfsfólk. Fjárhagslegir erfiðleikar leikskóla: Hvernig er staðan? Reykjavíkurborg hampar sér fyrir að hafa stytt vinnuvikuna hjá starfsmönnum sínum, en sú stytting hefur ekki komið leikskólum til góða. Engar aukafjárveitingar hafa verið gerðar til að ráða afleysingafólk fyrir þá sem nýta sér styttinguna. Þetta þýðir að starfsfólkið sem er ekki í styttingu þarf að bera meiri byrðar. Fjárveitingar til daglegs rekstrar leikskóla eru jafnframt of lágar. Ég veit um leikskóla þar sem starfsfólk hefur auglýst á Facebook eftir efni til að nota í vinnu með börnunum, því kvóti leikskólans er uppurinn. Starfsfólk er jafnvel að sækja efnivið í frítíma sínum fyrir eigin reikning. Þetta ástand er ólíðandi. Hvað getum við gert? Þessi pistill er ekki skrifaður aðeins til að gagnrýna heldur einnig til að vekja athygli á mikilvægi þess að breyta kerfinu: Reykjavíkurborg þarf að gera raunhæfa áætlun til að bæta aðstöðu í leikskólum. Húsnæði þarf að vera öruggt og hvetjandi fyrir börn og starfsfólk. Hækka þarf laun og bæta starfsaðstæður til að laða fólk að starfi í leikskólum. Endurskoða þarf mönnunarviðmið til að tryggja að starfsfólk hafi raunhæfan fjölda barna í sinni umsjá. Taka þarf opinskáa umræðu við foreldra og almenning um ástand leikskólanna, því það skiptir okkur öll máli hvernig er komið fram við börnin okkar. Þetta eru nokkur atriði sem við verðum að ræða. Samtök okkar kennara hafa í mörg ár bent á þessa alvarlegu stöðu og barist fyrir breytingum, en lítið hefur breyst. Þetta ástand, og árásir á samtök okkar nú þegar skilningsleysi stjórnvalda hefur neytt okkur í verkfall, særir okkur sem störfum með börnum og sjáum hversu miklu betra þau eiga skilið. Við vonum að með þessu kalli fái mál málanna þá athygli sem þau þurfa og verðskulda. Takk fyrir mig. Höfundur er leikskólakennari.