Skoðun

Skað­legt staf­rænt um­hverfi barna

Sigurður Sigurðsson skrifar

Ungmenni á Íslandi þurfa vernd – ekki fleiri skýrslur

Stjórnvöld á Íslandi geta ekki lengur látið eins og vandi ungmenna sé óljós, flókinn eða óútskýrður. Gögn og rannsóknir liggja fyrir og sýna mjög vel hver vandinn er.

Rannsóknir Dr. Jean M. Twenge sýna skýrt að andleg vanlíðan ungmenna jókst hratt eftir útbreiðslu snjallsíma og skaðlegra samfélagsmiðla. Íslenskar rannsóknir, greining og gögn til dæmis Landlæknis, staðfesta nánast sama mynstur hér á landi og erlendis. Þetta er staðreynd.

Vandinn er greindur engar afsakanirnar lengur í boði

Frá um 2011 hefur orðið mælanleg breyting á líðan ungmenna á Íslandi til dæmis meiri kvíði, verri svefn, aukin depurð og félagsleg einangrun. Þetta fellur saman við stöðuga og ávanabindandi snjallsímanotkun og ávanabindandi skaðlega samfélagsmiðla sem fylgja börnunum okkar allan sólarhringinn. Verri lesskilningur og félagsleg vandamál hafa aukist mikið. Börnin ná ekki fullorðinsþroska á eðlilegum tíma - verða seinþroska.

Stjórnvöld hafa hingað til brugðist við með umræðu, ráðstefnum og skýrslum. Það dugar ekki lengur því þegar lýðheilsa barna okkar er í húfi er aðgerðaleysi ekki í boði.

Þetta er ekki uppeldis brestur – þetta er mjög skaðlegt kerfislægt vandamál

Það er rangt og skaðlegt að varpa ábyrgðinni á foreldra eða ungmennin sjálf. Börn okkar búa núna í mjög skaðlegu stafrænu umhverfi sem samfélagið hefur skapað og stjórnvöld hafa leyft að þróast stjórnlaust og án verndar.

Ef um væri að ræða mengun eða heilsuspillandi vinnuumhverfi barna væri inngrip talið sjálfsagt þannig að núverandi skaðlegt stafrænt umhverfi barna ætti ekki að vera undantekning frá viðeigandi inngripi.

Skýr krafa til stjórnvalda

Stjórnvöld verða að bregðast við strax með raunverulegum aðgerðum, ekki ályktunum.

Tillaga um skref til úrbóta:

1. Setja landsviðmið um snjallsímanotkun barna svo sem aldursviðmið, símafrí á nóttunni og skýrar leiðbeiningar til foreldra og skóla

2. Skylda skóla til að setja reglur um símanotkun. Námsumhverfi ætti að styðja einbeitingu, en ekki valda stöðugu áreiti sem skaðar börnin í þágu erlendra fjármálarisa.

3. Viðurkenna skaðlegt stafrænt umhverfi sem alvarlegt lýðheilsuvandamál sem getur skaðað nám, þroska, hreyfingu, svefn og næringu barna.

4. Setja miklu strangar kröfur á tæknifyrirtæki til verndar börnunum sem eiga lögbundinn rétt á vernd gegn skaðlegum stafrænum kerfum sem eru hönnuð til að hámarka gróða í gegnum ávanabindandi skaðlega stafræna notkun með ávanabindandi tæknilausnum nútímans.

Tíminn skiptir máli

Árgangar barna okkar vaxa núna úr grasi með óbeislað skaðlegt rafrænt áreiti sem er raunverulega bara hættulegar tilraunir á börnum. Það er siðferðilega óverjandi og skaðinn mögulega óafturkræfur þar sem samfélagsbreytingarnar eru ófyrirsjáanlegar. Dr Jean M. Twenge gaf okkur viðvörunina og Íslenskar rannsóknir staðfestu hana. Nú er það á ábyrgð stjórnvalda að bregðast við.

Þetta er próf á forgangsröðun

Spurningin er einföld: Ætlum við að vernda börnin okkar – eða verja kerfi sem þjónar ekki þeirra hagsmunum né samfélagsins og getur sett samfélagið í ófyrirsjáanlega hættu í framtíðinni?

Ungmenni á Íslandi þurfa aðgerðir strax.

Höfundur er afi, langafi og áhugamaður um velferð barna og almennings.




Skoðun

Sjá meira


×