Sport

Hneig niður á sviðinu eftir að hafa náð vigt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cameron Smotherman stígur hér af vigtinni en aðeins örskömmu síðar steinlá hann í gólfinu.
Cameron Smotherman stígur hér af vigtinni en aðeins örskömmu síðar steinlá hann í gólfinu. Getty/Jeff Bottari/

UFC-bardagakappinn Cameron Smotherman missti meðvitund nokkrum sekúndum eftir að hafa náð vigt á föstudag í Las Vegas, sem varð til þess að forsvarsmenn aflýstu fyrirhuguðum bardaga hans gegn Ricky Turcios.

Smotherman hneig niður upp á sviðinu þegar hann var að ganga í burtu frá vigtinni. Þessi 28 ára gamli kappi missti meðvitund og féll fram fyrir sig á sviðsgólfið.

Smotherman hafði rétt náð 135,5 pundum og þar með staðist vigt fyrir bardaga sinn gegn Ricky Turcios.

Þegar hann gekk í átt að útganginum virtist hann augljóslega óstöðugur áður en hann missti meðvitund og hneig fram fyrir sig. Sjúkraliðar og starfsfólk UFC þustu til að aðstoða hann innan nokkurra sekúndna frá atvikinu.

Kappinn komst aftur til meðvitundar skömmu eftir fallið og var fylgt burt til frekari skoðunar hjá læknum. Hann var fluttur á sjúkrahús á staðnum til frekari læknisaðstoðar.

Tölvusneiðmyndir og röntgenmyndir sýndu ekkert óeðlilegt og hann þurfti aðeins að láta sauma skurð á höku sinni eftir fallið.

Smotherman tjáði sig sjálfur um atvikið á samfélagsmiðlum á föstudagskvöld og fullvissaði aðdáendur um að hann væri alheill á húfi. Hann sagðist ekki hafa þurft að skera mikið niður og væri enn óviss um hvað olli því að hann hneig niður. Kappinn sagðist myndu gangast undir frekari rannsóknir hjá læknum til að komast að því hvað gerðist eftir að hann fór af vigtinni.

Forsvarsmenn UFC aflýstu þriggja lotu bantamvigtarbardaganum milli Smotherman og Turcios í kjölfar atviksins. Bardaginn hafði verið á dagskrá í forkeppni laugardagskvöldsins.

Smotherman bað andstæðing sinn afsökunar á afbókuninni og lýsti yfir vilja til að snúa aftur til keppni í náinni framtíð. Kappinn frá Houston kom inn í vikuna með keppnisferil upp á tólf sigra og sex töp og átti að keppa í fjórða sinn undir merkjum UFC.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×